10. janúar 2014 · Slökkt á athugasemdum við Norræn samstaða í hvikulum heimi · Categories: Norðurlönd, Utanríkismál

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra Íslands og Erkki Tuomioja, utanríkisráðherra Finnlands skrifa:

Áhrif loftslagsbreytinga og annarrar hnattrænnar þróunar skapa heimsbyggðinni sífellt nýjar áskoranir og tækifæri. Norrænu ríkjunum hefur tekist vel til að bregðast við þessum breytingum eins og fjölmargar rannsóknir sýna. Sá árangur Norðurlandanna hefur verið öðrum áhugaverð fyrirmynd en við getum gert enn betur.

Samvinna skilar mestum árangri þegar mæta þarf krefjandi verkefnum samtímans. Aukin norræn samvinna er að okkar mati lykill að lausn þeirra verkefna sem við stöndum andspænis. Við erum reiðubúin að leggja fram þekkingu okkar og reynslu í þeirri viðleitni að ná markmiðum sjálfbærrar þróunar í umhverfislegu, félagslegu og efnahagslegu tilliti.

Á fundi okkar í Helsinki í gær ræddum við með hvaða hætti Finnland og Ísland geta í sameiningu nýtt styrk sinn enn frekar í þágu norrænnar samvinnu. Sameiginleg gildi Norðurlandanna byggjast á lýðræði, réttarríkinu, jafnrétti kynjanna og virðingu fyrir mannréttindum. Þetta eru leiðarljós stefnu okkar jafnt innanlands sem og á vettvangi alþjóðastofnana, meðal annars innan Sameinuðu þjóðanna, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og svæðisbundinna stofnana í Norður-Evrópu.

Norræn samvinna á sviði utanríkis- og öryggismála er í mótun. Mikilvægt skref sem þéttir raðirnar var stigið í Helsinki árið 2011 þegar allir fimm utanríkisráðherrar Norðurlandanna sammæltust um norræna samstöðuyfirlýsingu þar sem lögð er áhersla á að ríkin muni koma hvert öðru til aðstoðar þegar hætta steðjar að, svo sem af völdum náttúruhamfara, af mannavöldum og vegna tölvu- og hryðjuverkaárása.

Merkur áfangi
Samvinna Norðurlandanna á sviði varnarmála hefur eflst enn frekar innan NORDEFCO-samstarfsins á síðustu árum. Merkum áfanga verður náð í samstarfi norrænu ríkjanna þegar Svíþjóð og Finnland taka þátt í loftrýmiseftirliti og tengdri þjálfun á Íslandi í næsta mánuði.

Samvinna okkar byggist á heildstæðri sýn á öryggismál. Við erum sammála um mikilvægi forvarna og viðbúnaðar þegar tekist er á við öryggisáskoranir samtímans, hvort sem um ræðir mansal, netöryggi, neyðarástand sem krefst mannúðaraðstoðar eða umhverfismál á borð við loftslagsbreytingar.

Breytingar og áskoranir í nærumhverfi okkar á norðurslóðum hafa áhrif á stöðu Íslands og Finnlands. Norðurskautsráðið er nú meginvettvangur alþjóðlegrar samvinnu á norðurslóðum. Það hefur þróast frá því að vera vettvangur stefnumarkandi umfjöllunar yfir í samstarfsvettvang þar sem ákvarðanir eru teknar. Gerð lagalega bindandi samninga um leit og björgun og viðbrögð við olíuvá undirstrika þessa þróun. Það eru gagnkvæmir hagsmunir okkar að treysta enn frekar hlutverk Norðurskautsráðsins.

Svæðisbundin og alþjóðleg samvinna stuðlar að öryggi Norðurlandanna í víðtækum skilningi. Hún er lykillinn að framtíðinni.

Birtist í Fréttablaðinu 8. janúar 2014

31. desember 2013 · Slökkt á athugasemdum við Mínar bestu þakkir fyrir góð kynni, samstarf og stuðning á árinu sem nú er að líða. · Categories: Framsókn, Ýmislegt

Erilsamt ár er að baki. Kosningar þar sem Framsóknarflokkurinn vann stórsigur, myndun ríkisstjórnar undir forystu Sigmundar Davíðs og staða Utanríkisráðherra sem mér var treyst fyrir.

Allt þetta hefði ekki gerst ef ekki hefði verið til staðar framsóknarfólk sem tilbúið var að vinna að framgangi stefnunnar, fjölskyldur sem voru tilbúnar að fórna samverustundum, annað stuðningsfólk sem hafði trú á okkur og loks kjósendur sem treystu því sem við sögðum.

Við förum vel af stað. Búið er að ganga frá því hvernig höfuðstóll lána nærri 90% heimila landsins verða leiðrétt og á sama tíma eru fjárlög samþykkt hallalaus, kjör eldriborgara eru leiðrétt os.frv. Mörg önnur mál þarf að klára og fylgja eftir og munum við vinna að þeim út kjörtímabilið.

Um leið og ég þakka fyrir góð kynni, samstarf og stuðning á árinu sem er að líða, óska ég ykkur gæfu og gleði á nýju ári.

Gunnar Bragi.

03. desember 2013 · Slökkt á athugasemdum við Evrópusambandið veldur vonbrigðum · Categories: Ýmislegt

Núna hefur Evrópusambandið brugðist þeim fjölmörgu aðilum sem það hefur gert samninga við um IPA styrki.

Framkvæmdastjórn ESB hefur einhliða og án fyrirvara tilkynnt ákvörðun um að hætta öllum IPA-verkefnum sem hafin voru á Íslandi. Framkvæmdastjórnin mun segja samningum upp með tveggja mánaða fyrirvara og þeim send bréf þess efnis á næstu dögum.

Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar kemur utanríkisráðuneytinu í opna skjöldu, í ljósi þess að íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á gott samstarf við ESB og sérstaklega þegar til þess er litið að framkvæmdastjórnin hefur á fyrri stigum ítrekað gefið til kynna að öllum IPA verkefnum sem hafin væru yrði lokið án tillits til mögulegrar aðildar. Íslenskir og erlendir samstarfsaðilar hafa því haldið áfram að vinna að verkefnum í góðri trú um að Evrópusambandið myndi standa við fyrri ákvarðanir og yfirlýsingar.

Vðsnúningur ESB er óskiljanlegur þar sem ekkert nýtt hefur gerst síðan hlé gert á viðræðum og fyrri ákvörðun var tekin um framtíð IPA styrkjanna.

Þessi vinnubrögð eru forkastanleg að mínu mati og ekki til þess fallinn að lyfta ímynd ESB á Íslandi að neinu leiti.

 

30. nóvember 2013 · Slökkt á athugasemdum við Leiðréttingin kynnt · Categories: Framsókn, Ríkisstjórnin, Skuldamál

Í dag voru aðgerðir ríkisstjórnarinnar varðandi leiðréttingu verðtryggðra húsnæðislána kynntar á blaðamannafundi í Hörpu.

Eftir einungis 6 mánuði hefur þessari ríkisstjórn tekist það sem aðrar ríkisstjórnir hafa haft viljann til að gera, en því miður hefur vantað uppá þorið.

 

Mikil vinna hefur verið lögð í þessar tillögur síðustu mánuði og niðurstaðan er á þann veg að báðir stjórnarflokkarnir eru samhljóða um ágæti þeirra. Ég hef fulla trú á því að íslenska þjóðin sé okkur sammála. Hér er um að ræða aðgerð í þágu heimilanna og þeirra fjölskyldna sem urðu fyrir forsendubrestinum í kjölfar efnahagshrunsins.

 

Við þorum að standa með íslenskum heimilum. Það höfum við sagt síðustu 4 ár, það sögðum við í kosningabaráttunni og það sýnum við í dag.

 

Aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar um höfuðstólslækkun húsnæðislána

 

13. nóvember 2013 · Slökkt á athugasemdum við Hvar er allt fólkið? · Categories: ESB, Skuldamál, Utanríkismál

Þorsteinn Pálsson er um margt geðugur maður og dagsfarsprúður. Því kemur því á óvart hversu ómálefnalegur hann er orðinn þar sem hann stendur upp á kögunarhóli Fréttablaðsins, þar sem hann í þríliðu pönkast á því fólki og flokkum sem ekki vilja ganga í Evrópusambandið. Í því efni liggur honum sérstaklega þungt orð til okkar framsóknarmanna og hefur svo lengi verið.

Á sömu síðu syngur líka sínar rímur Ólafur Stephensen, ritstjóri, sem skrifar annan hvorn leiðara til að dásama ESB.

Ekki fer illa á að þeir séu á sömu síðunni, það er ákveðið hagræði í því.

Þeim báðum til glöggvunar, skal bent á að flokkarnir sem fengu meirihluta í síðustu kosningum voru sammála um tvö stórmál: að hjálpa skuldugum heimilum, með leiðréttingu lána og svo að ekki væri hagstætt fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið.

Mér sýnist að þessir greindu menn hafi misst af þessum meginniðurstöðum kosninganna.

2. nóvember tapar hinn dagfarsprúði Þorsteinn sér hinsvegar alveg og skrifar ósvífna grein sem á að sýna fram á að Framsókn sé ” þjóðernispopulistaflokkur ” Ástæðan fyrir nafngiftinni er sú að við viljum ekki í Evrópusambandið og ætlum að standa við loforð um að létta byrðar almennings í landinu.

Hvaða dónaskapur er það að telja menn einangrunarsinna fyrir að hafa þá skoðun að hagsmunum okkar sé betur borgið utan Evrópusambandsins? Ríkisstjórnin hvetur til samvinnu og aukins samstarfs við Evrópusambandið, Evrópuþjóðir, Kanada, Bandaríkin og Kína, sem og nýrrar sóknar til norðurs.

Einu sinni kom ástsjúkur strákur á bæ og vildi hitta heimasætuna sem hann lagði hug á. Allt heimilisfólkið, alls um tíu manns, sat í baðstofu, nema heimasætan, sem hafði brugðið sér af bæ. Þá spurði stáksi, ” hvar er allt fólkið”?

Sama er með Þorstein og Evrópusambandið.

Af kögunarhólnum er alltaf horft í sömu áttina, “rétt eins og vindhani sem ryðgaður er fastur á bæjarburst”.

Skuldamál heimila voru aðalmál kosninga og Framsóknarflokkurinn hafði ákveðna sýn í þeim málum.

Kjósendur töldu það brýnasta mál samfélagsins og nýlegar kannanir sýna svo ekki verður um villst, að almenningur telur það enn langbrýnasta málið og gnæfir það yfir öll önnur viðfangsefni.

Þorsteinn vogar sér að halda því fram að það sé popúlismi að takast á við brýnasta verkefni samtímans.

Það er honum til vansa. Ég hef velt því fyrir mér hvað gengur eiginlega að manninum og rifjast upp fyrir mér atburðarás sem ég heyrði talað um þegar ég var ungur maður fyrir norðan, en sem kunnugt er afgreiddi ég þar bæði bensín og mokaði skít, ef þess þurfti.

Sagt var að þegar Sjálfstæðisflokkurinn skrapp úr hendi Þorsteins, eftir honum hafði reynst ofviða að stjórna ráðuneyti sem hann veitti forstöðu hafi hann kennt Framsókn um.

Allir vita auðvitað að örlög Þorsteins voru í eigin hendi alltaf og sjálfstæðismenn völdu foringja sem þeir töldu sigurstranglegri, án aðkomu og afskipta fólks úr öðrum flokkum.

Sagt er að Þorsteinn hafi síðan lagt fæð á framsóknarmenn.

Það er tímabært fyrir Þorstein að átta sig á að það voru hans eigin flokksmenn sem höfnuðu honum, líkt og þeir hafa hafnað Evrópusambandinu.

 

17. október 2013 · Slökkt á athugasemdum við Að gefnu tilefni – Ekki stutt í fullbúinn samning við ESB · Categories: Ýmislegt

Í tilefni af því að framkvæmdastjórn ESB gaf í gær út skýrslur sínar um einstök ríki sem eru í aðildarferli að ESB lýsti stækkunarstjóri ESB því mati sínu að „…við höfum ekki verið það langt frá því að leggja fyrir Íslendinga samning sem hefði tekið tillit til sérstöðu Íslands en um leið grundvallarreglna Evrópusambandsins og allra reglna leiksins.“

Hér er farið heldur frjálslega með. Staðreynd málsins er sú að öll stærstu málin í þessum viðræðum stóðu enn út af þegar hlé var gert á þeim. Þrátt fyrir að margir samningskaflar höfðu verið opnaðir og um þriðjungi lokað, þá fær það ekki staðist að stutt hafi verið í samningsniðurstöðu þegar kaflar um sjávarútveg og landbúnað höfðu ekki verið opnaðir svo ekki sé minnst á þá staðreynd að ESB hafði ekki einu sinni afgreitt sína eigin rýniskýrslu um sjávarúvegskaflann.

Þessi fullyrðing stækkunarstjórans sýnir að það er brýnt að réttar upplýsingar um stöðu viðræðnanna við ESB séu á borðinu. Þess vegna mun sá þáttur einmitt verða hluti af þeirri úttekt sem ég mun kynna fljótlega á nýju ári.

12. september 2013 · Slökkt á athugasemdum við Munnleg skýrsla um Evrópumál · Categories: Ýmislegt

Ræða 12. september 2013

Virðulegi forseti,

Ég hef óskað eftir að flytja Alþingi munnlega skýrslu um stöðu aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu.

Mér finnst mikilvægt að gera Alþingi sérstaka grein fyrir þeim skrefum sem ríkisstjórnin hefur stigið á undanförnum vikum í krafti nýrrar stefnumörkunar í þessu máli.

Utanríkismálanefnd hefur verið upplýst sérstaklega á fundum yfir sumartímann. Það er hins vegar eðlilegt að gefa einnig tækifæri til umræðu um þetta hér í þingsal.

Virðulegi forseti,

Ríkisstjórnin er með jákvæða og metnaðarfulla sýn í Evrópumálum. Við viljum hafa samstarf við ESB sem öflugast. Við viljum að Ísland sé sýnilegt í því samstarfi á jafningjagrundvelli og leggi sinn málstað sterkt að mörkum í mótun þeirra reglna sem við tökum yfir frá ESB. Á minni vakt verða samskiptin við ESB eitt af þeim atriðum sem verður í forgrunni.

Fyrst af öllu er mikilvægt að halda því til haga að samskipti Íslands við ESB standa traustum fótum enda hefur okkur á liðnum árum og áratugum lánast að byggja varanlega umgjörð um farsælt samstarf á nánast öllum sviðum og ber EES-samstarfið þar hæst. Við viljum gera okkur enn frekar gildandi og sýnileg í því samstarfi sem við eigum við ESB, útvíkka það enn frekar og færa inn á ný svið.

Þannig hef ég einsett mér að efla og treysta þessi samskipti sem mest þó aðildarviðræður hafi verið settar í hlé.

Þennan vilja okkar til frekara samstarfs hef ég rætt við félaga mína innan ESB, m.a. tekið upp við stækkunarstjórann og aðra þá sem ég hef hitt. Það er í þágu hagsmuna Íslands og ESB að byggja frekar ofan á þær styrku stoðir sem nú þegar eru til staðar. Þannig, eins og ávallt, er ég viss um að gera megi betur og láta rödd Íslands hljóma enn hærra í þessu samstarfi. Munum við kappkosta að greina tækifærin og nýta enn frekar til hagsbóta íslenskum hagsmunum.

Virðulegi forseti

Ég vil að við stundum sterka og sýnilega hagsmunagæslu innan EES og í tengslum við aðra þá samninga sem við höfum gert við ESB. Það kallar á mannafla og viðveru í Brussel. Tillögur í þessa veru eru á teikniborðinu frá minni hendi. Þá reynir á þann vilja sem þingið sjálft hefur sýnt í þessa veru, sbr. þingsályktun frá því s.l. vor.

En ég horfi einnig til þess að styrkja tvíhliða samstarf og samskipti við ESB. Því tengsl okkar við sambandið bjóða upp á eflingu slíks samstarfs á sviðum sem eru utan EES. Hef ég t.d. þegar nefnt það við stækkunarstjórann að ég sjái fyrir mér aukið samstarf á sviði sjávarútvegs, landbúnaðar, orkumála, friðargæslu, þróunarsamvinnu og norðurslóðamála svo einstök brýn mál séu nefnd. Hvar sem við komum finnum við fyrir miklum áhuga á tvílhliðasamstarfi við Ísland. Felast í því mikilvæg tækifæri.

Nú langar mig að víkja að upphafi aðildarferilsins.

Frá því í byrjun hefur margt verið gagnrýnt. Ekki var einhugur innan þáverandi ríkisstjórnar um aðildarumsókn og var sú óeining upphafið að vandræðaganginum.

Að sækja um aðild var ekki lítil ákvörðun. Þarna var um gríðastóra ákvörðun að ræða af Íslands hálfu og var hún tekin án þeirrar samstöðu og sannfæringu sem hefði þurft að vera til staðar.

Það sannaðist einnig eftir því sem leið á hve veikur grundvöllurinn var. Orkan fór í samninga milli og innan stjórnarflokkanna fremur en efnislegar samningaviðræður við ESB.

Af því leiddi að við lok kjörtímabils höfðu enn ekki hafist samningar um mörg lykilatriði í ferlinu.

Mér er til efs að á þessum grunni hefði verið hægt að leiða til lykta stærstu hagsmunamálin í ferlinu. Hagsmunirnir voru einfaldlega of stórir miðað við málatilbúnað og umgjörðin var vanbúin .

Vissulega er það rétt að það náðist að opna flesta kaflana, og sumir þeirra vörðuðu mikilvæg atriði. Einnig náðist að loka mörgum köflum. Þegar grannt er skoðað eru lokuðu kaflarnir hins vegar meira og minna  mál þar sem þegar var til staðar djúpt samstarf við ESB og því fyrirfram vitað að tiltölulega einfalt yrði að klára. Það verður ekki heldur horft framhjá því að ESB notaði síðan þetta ferli til að reyna að knýja til samninga í öðru óskildu máli – makríl. Slíkt högg er langt fyrir neðan beltisstað og veit ég að þeirri skoðun deilum við fyrrverandi utanríkisráðherra, háttvirtur þingmaður Össur Skarphéðinsson.

Virðulegi forseti,

Lagt var upp í þessa vegferð á miklum óvissutímum hér á landi – staða okkar var ekki sterk.

Það reyndust ekki bara óvissutímar hér á landi heldur ekki síður innan ESB – sambandið hefur háð snarpan bardaga við efnahagskrísu sem það virðist sem betur fer vera að komast út úr í hægum skrefum.

Óvissa hefur ríkt um framtíð evrunnar – lifir hún eða lifir hún ekki?

Ísland hefur hagsmuni af stöðugri og efnahagslega sterkri Evrópu og við fögnum við því ef evran og ESB koma standandi í báðar fætur út úr erfiðleikunum.

Á hinn bóginn benda ýmis viðbrögð við efnahagskreppunni til þess að ESB muni dýpka sitt samstarf sem kallar á meira framsal valds frá aðildarríkjum til Brussel. Saga samrunans í Evrópu á síðustu áratugum kennir okkur einmitt það að efnhagskrísur hvers konar sem upp hafa komið með reglulegu millibili, hafa nokkrum misserum síðar valdið ófyrirséðum samruna á kostnað lýðræðisins. Það er gegn ríkjandi viðhorfum hér á landi og hjá sumum aðildarríkum ESB

Enn virðist nokkuð í land að traustri lendingu séð náð með framtíð evrunar. Undir slíkum kringumstæðum er ábyrgðarlaust að halda áfram ferlinu.

Virðulegi forseti,

Afstaða beggja stjórnarflokka er skýr. Flokkarnir leggjast gegn aðild að ESB. Landsfundir beggja flokka samþykktu að ef halda ætti ferlinu áfram yrði það einvörðungu gert að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Fólk getur treyst því að ekki verður haldið áfram viðræðum nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þess vegna á ekki að koma á óvart að flokkarnir ákváðu að gera hlé á viðræðum. Á sama tíma tekin ákvörðun um að fá sérfræði úttekt á stöðu viðræðanna og þróun mála innan ESB. Þetta síðarnefnda er ekki síst mikilvægt í ljósi þess að vísbendingar eru um sterkari samrunaþróun innan sambandsins og óvissu í efnahagsmálum.

Allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa verið í samræmi við þessa skýrt mörkuðu stefnu sem hlaut brautargengi í kosningunum síðasta vor.

Við höfum gengið ákveðið til verks.

Mitt fyrsta verk á erlendri grund var að funda með stækkunarstjóra ESB í byrjun júní. Stuttu síðar fundaði forsætisráðherra með forseta leiðtogaráðs ESB og forseta framkvæmdstjórnarinnar. Svo má geta þess að í síðustu viku átti ég óformlegt samtal við stækkunarstjórann á fundi utanríkisráðherra norðurlanda og eystrasaltsríkjanna.

Við höfum í þessum samtölum skýrt fyrir okkar gagnaðilum í ESB að viðræður hafi verið settar í raunverulegt hlé, það beri að taka þessa ákvörðun alvarlega. Við höfum leyst upp samninganefnd og –hópa, ekki verða fleiri ríkjaráðstefnur haldnar, ESB hefur ákveðið að ekki verði um frekari nýja IPA styrki að ræða o.s.frv.

Engar skemmdir hafa verið unnar á einu né neinu, aðildarumsókn hefur ekki verið afturkölluð  – engu hefur verið slitið.

Þannig hefur verið staðið að þessu máli öllu í góðri sátt við gagnaðila okkar enda bera viðbrögð ESB ekki merki annars en sambandið hafi fullan skilning á ákvörðun okkar um hlé á aðildarferlinu.

Virðulegi forseti,

Af þessu má ráða að ríkisstjórnin hefur í störfum sínum fylgt ákveðið eftir stefnumiði sínu. Þetta er í samræmi við ályktanir flokkanna sem unnu afgerandi kosningasigur í vor.

Jafnframt standa yfir viðræður við óháða háskólastofnun, nánar tiltekið Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, um gerð þeirrar úttektar sem boðuð var. Hagfræðistofnun mun án efa leita fanga víða, innanlands sem utan, við vinnslu sinnar skýrslu. Sú úttekt verður svo tekin til umræðu hér í þinginu og kynnt fyrir þjóðinni.

Ekki er tímabært að velta fyrir sér framhaldi aðildarferilsins fyrr en skýrslan hefur verið gerð en málefnaleg og rökföst umræða mun án efa eiga sér stað innan þingsins um efni hennar og hlakka ég til þess.

Virðulegi forseti,

Að lokum þetta.

Ég virði sjónarmið þeirra sem telja að hag Íslands kunni að vera betur borgið innan ESB. Ríkisstjórnin er einfaldlega ekki sammála þeim og þar skilur á milli.

Ég tel að í svo viðamiklu máli sem þessu sé alger forsenda að stuðningurinn sé almennur og samtakamátturinn sterkur. Á það hefur frá upphafi skort. Það þarf drjúgan stuðning þings og þjóðar áður en lagt er af stað í viðræður um aðild að ríkjabandalagi sem kallar á ákveðnar grundvallarbreytingar á okkar stjórnskipan. Núverandi ríkisstjórn styður ekki aðild og sterkar vísbendingar eru um að þjóðin sé sama sinnis.

Virðulegi forseti,

Ríksstjórnin er einhuga í þessu máli. Hlé hefur verið gert á ferlinu, engu hefur verið slitið og við viljum efla samskipti og treysta sambandið við ESB án þess að til aðildar að bandalaginu komi.

18. ágúst 2013 · Slökkt á athugasemdum við Af ESB, IPA og þjóðaratkvæðagreiðslu · Categories: ESB, Ríkisstjórnin, Utanríkismál, Ýmislegt

“Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.” – Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins

ESB

Aðild Íslands að Evrópusambandinu var ekki eitt af stærstu málum kosningabaráttunnar í vetur en flokkarnir upplýstu að sjálfsögðu um fyrirætlanir sínar varðandi málið. Núverandi stjórnarflokkar fóru ekki leynt með þá ætlun sína að ef þeir fengu umboð frá þjóðinni yrði breytt um stefnu. Flokkarnir hlutu meirihluta þingsæta og lýðræðislegan rétt til að fylgja eftir stefnu sinni varðandi ESB og önnur mál.

Í stjórnarsáttmálanum segir að gert verði hlé viðræðunum. Það þýðir að sjálfsögðu að ekki verður meira unnið við aðildarferlið og kröftunum beint í önnur verkefni.  Stöðu viðræðnanna þarf að meta og til grundvallar því liggur stöðuskýrsla frá því í apríl. Verður metið hvort ástæða sé til að skoða ákveðna hluta hennar betur og/eða leita svara við spurningum sem etv. er ekki svarað. jafnframt er ætlunin að leggja mat á þróun Evrópusambandsins frá því að ferlið hófst 2009 og reyna að meta hvernig líklegt er að ESB þróist á næstu árum.

Nýverið birti breska blaðið Daily Mail niðurstöður könnunar sem gerð var meðal íbúa Evrópusambandsins. Spurt var um traust til sambandsins og var niðurstaðan sú að 60% treysta ekki sambandinu. Svo afgerandi lýsing á vantrausti hlýtur að valda stjórnendum ESB áhyggjum.

IPA

Með stöðvun aðildarviðræðna er þó að mörgu að huga, t.a.m. framtíð IPA-verkefna hér á landi.

IPA (Instrument for Pre-Accession Assistance) er samheiti yfir fjölþætta aðstoð sem ESB veitir umsóknarríkjum til að undirbúa aðild. Með það að leiðarljósi var það tekið skýrt fram samhliða stöðvun aðildarviðræðnanna að ekki yrði af IPA verkefnum sem ekki væru hafin að nokkru leyti. Ríkisstjórnin ákvað þó að leggja til að verkefni sem komin voru af stað eða búið var að eyða miklum tíma og kröftum í að undirbúa yrðu kláruð. Á þetta féllst ESB ekki þar sem viðræður um aðild hafa verið stöðvaðar. Ákvörðun Evrópusambandsins um að hætta við styrkina má skilja sem staðfestingu á því að ekki sé lengur litið á Ísland sem ríki í umsóknarferli.

Nokkrar staðreyndir um styrkina:

  • Ekki stendur til að hætta við þau verkefni sem þegar eru hafin, en viðræður um að ljúka þeim fara fram í næsta mánuði. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að ESB muni krefjast endurgreiðslu á þeirri upphæð sem  hefur verið lögð í þau verkefni.
  • Heildarstuðningurinn sem Íslandi stóðtil boða nam um 6,2 ma. kr., þar af voru 5,2 ma. ásvokallaðri landsáætlun sem skipt var áárin 2011, 2012 og 2013.
  • Öll verkefni álandsáætlun 2011, aðupphæð1,8 ma. kr., voru umsamin og hafin utan Matís-verkefnisins sem fellur þ.a.l. niður.
  • Öll verkefni á landsáætlun 2012 og 2013 falla niður, utan eitt sem var hafið; styrkur til að undirbúa stjórnunareiningu fyrir þátttöku í uppbyggingarsjóðunum í atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti af landsáætlun 2012.

Yfirlit yfir landsáætlun – http://www.utanrikisraduneyti.is/media/ipa/Yfirlit-IPA-verkefna-2011-2013.pdf

Verkefnin sem hlotið höfðu brautargengi hjá „commisjóninni“ í Brussel eru mörg áhugaverð og hægt að setja sig í spor þeirra sem að þeim standa, að sækja í þá miklu fjármuni sem ESB bauð uppá. Nú þurfa þessir aðilar að leita leiða til að fjármagna verkefnin með öðrum hætti, fresta þeim, hægja á þeim, hætta við eða forgangsraða.

Evrópusambandið og fyrri stjórnvöld höfðu byggt upp miklar væntingar í kringum IPA styrkina. Á alþingi vöruðu alþingismenn við slíkum væntingum og lýstu sumir efasemdum um réttmæti styrkjanna.

IPA styrkir eða annar hvati frá Evrópusambandinu má ekki vera drifkrafturinn fyrir aðildarumsókn. Hún þarf að byggja á vilja sem flestra Íslendinga til að vilja aðlaga líf sitt að sambandinu.

Þjóðaratkvæðagreiðsla

Í stjórnarsáttmálanum segir að “Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.” Einhverra hluta vegna hefur þessi setning verið túlkuð með ólíkum hætti en ætti ekki að þurfa. Ekki verður um frekari viðræður eða vinnu að ræða þar sem búið er að gera hlé. Fólk getur treyst því að ekki verða viðræður hafnar á ný nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Nýjustu kannanir sýna að 57,4 % Íslendinga eru á móti aðild að Evrópusambandinu. Þar liggja eflaust margar ástæður að baki en staðreyndin er sú að meirihluti þjóðarinnar er á móti aðild.

17. júlí 2013 · Slökkt á athugasemdum við Ríkisútvarp sumra? · Categories: Ýmislegt

Samfylkingarmaðurinn Hallgrímur Helgason (rithöfundur), nýtti áróðurmínútur sínar hjá Ríkisútvarpinu vel sl. mánudag. Hallgrímur fór mikinn í pistli sínum um Framsóknarflokkinn og framsóknarmenn og jafnvel ímyndaða framsóknarmenn. Ekki ætla ég að hafa mörg orð um hugsanir Hallgríms enda gef ég lítið fyrir þær líkt og orð hans og skrif.

Ég hef í gegnum tíðina talið mig til þess hóps sem varið hefur Ríkisútvarpið þótt ég hafi líka leyft mér að gagnrýna það þegar ég tel það við hæfi.
Í dag velti ég fyrir mér tilgangi Ríkisútvarpsins.

Samfylkingarmínúturnar sem Hallgrímur Helgason nýtti svo vel, vekja mann til umhugsunar. Kannski er það stefna Ríkisútvarpsins að gefa öllum stjórnmálaflokkum rými í sinni dagskrá til að níða skóinn af pólitískum andstæðingum? Sé það svo þá hljóta stjórnendur Ríkisútvarpsins að bjóða einhverjum framsóknarmanni en rithöfundinum virðist sérstaklega í nöp við okkur framsóknarmenn, að mæta í Efstaleitið og útvarpa „framsóknarsannleik“ um Samfylkinguna og Icesave, spron, fjármál Samfó, tengsl Samfylkingarinnar við Baug, stjórnarmenn hingað og þangað á þeirra vegum, Árna og Íbúðalánasjóð, tengsl við Hallgrím og tengsl við útrásarvíkinga os.frv.

Skora ég á útvarpsstjóra að bjóða öðrum flokkum eins margar mínútur og Samfylkingin fékk.

Ekki kemur á óvart ef stjórnendur stofnunarinnar (Ríkisútvarpsins) telji ástæðu til að bregðast við þessari gagnrýni minni með grein á Eyjunni, yfirlýsingu eða gamalli frétt um Framsóknarflokkinn.

Og ef einhver efast um að Hallgrímur Helgason sé handbendi Samfylkingarinnar og deili mögulega skoðunum einhverra innan Ríkisútvarpsins er kemur að Framsóknarflokknum, þá vitnar rithöfundurinn um ást sína á Samfylkingunni m.a. með þessum orðum á vef flokksins : „Af því Samfylkingin sameinar allt það besta í okkur: Kraftinn til að skapa (markaðurinn), samúðina með þeim sem hana þurfa (velferðarkerfið) og alþjóðlega hugsun (Evrópusambandið).“

(http://www.samfylkingin.is/F%C3%B3lki%C3%B0/Vi%C3%B0_sty%C3%B0jum/tabid/198/articleType/ArticleView/articleId/339/Hallgrimur-Helgason-rithofundur.aspx)

Þeir sem ekki hafa heyrt áróður Hallgríms geta fundið pistilinn á vef hins óháða Ríkisútvarps.

Ríkisútvarpið á að vera útvarp allra landsmanna, ekki bara þeirra sem eru þóknanlegir.

Gunnar Bragi.

27. apríl 2013 · Slökkt á athugasemdum við Um hvað er kosið. · Categories: alþingi, Atvinnumál, ESB, Framsókn, Landsbyggðin, Ýmislegt · Tags: , , , ,

Kæru vinir.

Á morgun er kosið um lausnir og framtíðina. Lausnir til að létta á vanda tugþúsunda heimila og hvernig við nýtum tækifæri Íslands og búum í haginn fyrir framtíðina.

Lausn á fjárhagsvanda íslenskra heimila er afar mikilvæg til að heimilin verði virkur þátttakandi í hagkerfinu þar sem þau leika afar stórt hlutverk. Við höfum bent á hvernig það megi gera og ekki er lengur deilt um að þeir fjármunir sem þarf til þess eru til staðar. Deilt er um hvort nota eigi fjármunina fyrir heimilin eða í annað. Við veljum heimilin.

Leita verður allra leiða til að leysa úr flækjum varðandi gengislán fyrirtækja og einstaklinga þar sem fjármálastofnanir hafa dregið að virða niðurstöður dóma.

Kosið er um nýjar hugmyndir í byggðamálum , jöfnun orkukostnaðar og aðrar leiðir til að tryggja búsetujafnrétti. Einnig er kosið um jafnrétti til náms og launa enda óskiljanlegt að kyn ráði launum.

Við kjósum um sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar sem við sýndum í Icesave kosningunum að við metum mikils og framsóknarmenn munu standa áfram vörð um. Því verður ekki haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Tækifærin í helstu atvinnugreinum okkar eru mikil ef við bara berum gæfu til að gefa þeim sem þar starfa færi á að fjárfesta í framtíðinni. Öflugt velferðarkerfi verður aldrei í boði án öflugs atvinnulífs því þar verða tekjur ríkissjóðs til. Við ætlum því að fjölga störfum m.a. með því að búa til hvata fyrir fyrirtæki landsins til vaxtar svo fleiri greiði til samfélagsins. Við viljum forgangsraða í þágu heimila, heilbrigðisþjónustu og öryggis borgaranna ásamt því að leiðrétta kjör aldraðra og öryrkja

 

Verkefnin eru ærin. Með samráði við helstu aðila íslensks efnahagslífs má búa til samfélag sem tryggir stöðugleika og velsæld byggða á þekkingu og skynsamlegri nýtingu auðlinda.

X við B tryggir festu, rökhyggju og skynsemi við stjórn landsins næstu árin.

Gunnar Bragi.