20. mars 2014 · Slökkt á athugasemdum við Skýrsla utanríkisráðherra til Alþingis 2014 · Categories: alþingi, Norðurlönd, Öryggis- og varnarmál, Ríkisstjórnin, Utanríkismál, Ýmislegt

 

  • Ég fylgi hér úr hlaði skýrslu minni til Alþingis um utanríkis- og alþjóðamál. Það er rík hefð fyrir þessari skýrslugjöf hér á Alþingi og umræðum þeim sem á eftir fylgja. Er það ánægjulegt að geta lagt fram eins efnismikla skýrslu og hér er á borðum og er það von mín að um efni hennar geti átt sér stað góðar umræður í dag.

 

  • Staða Íslands í alþjóðsamfélaginu, hlutverk okkar og áherslur er ákaflega mikilvæg umræða. Ekki bara hér á Alþingi heldur í samfélaginu öllu. Er hægt að fullyrða að vandfundin er sú þjóð sem er eins vel upplýst um alþjóðamál og er eins meðvituð um stöðu sína og hlutverk í alþjóðasamfélaginu og við Íslendingar.

 

  • Við erum sjálfstæð, megnug og velmegandi þjóð sem hefur kosið að eiga náið samstarf við nágranna sína, vinaþjóðir og bandamenn. Um meginstef utanríkisstefnu Íslands ríkir í öllum aðalatriðum sátt og hefur svo verið nánast óháð því hvaða stjórnvöld sitja hverju sinni, þótt um einstaka ákvarðanir geti vissulega verið skiptar skoðanir.

 

  • Gegnumsneitt hafa íslensk stjórnvöld leitast við að auka hagsæld á Íslandi með því að opna markaði fyrir íslenska framleiðslu, menningu og hugvit. Með sama hætti hafa stjórnvöld talað röddu Íslands á alþjóðavettvangi svo að sérstaða okkar skiljist og að hagsmunir verði tryggðir. Þá er öryggi lands og þjóðar eitt af megin hlutverkum stjórnvalda. Ísland hefur ávallt farið þá leið að taka þátt í alþjóðasamstarfi, gert samninga við bandamenn okkar um varnir landsins og talað fyrir friði og mannréttindum.

 

  • Í þessari upptalningu birtast meginstefin sem slegin hafa verið í íslenskri utanríkispólitík. Þetta eru sömu stef og meirihluti þjóðar hefur fylkt sér um og þetta er leiðarljós fólksins sem skipar utanríkisþjónustuna.

 

  • Með leyfi forseta: „…„Permanent Mission of Iceland, góðan dag” segir silkimjúk og traustvekjandi kvenmansröddin í símann. Mér líður strax betur, kynni mig og segist vera í nokkrum vanda. „Ég er staddur í Mombasa, vegabréfs- og farmiðalaus. Getið þið hjálpað!” – „JESÚS” segir hljómþýða röddin – missir örlítið taktinn en er snögg að ná fyrri yfirvegun. „Jú, við getum örugglega bjargað því”. Samtalið heldur áfram og námsmaðurinn leggur á skömmu síðar, rólegur og sæll í bragði…

 

  • Þessi tilvitnun er í bloggskrif starfsmanns utanríkisþjónustunnar. Hvers vegna er það nefnt hér í ræðustóli Alþingis? Jú, utanríkis- og alþjóðamál eru lifandi málaflokkur og munu úrlausnir vandamála og stefnubreytingar alltaf taka mið af samspili hagsmuna og hugmynda um samfélag okkar. Með nýjum tímum fylgja ný vinnubrögð. En grunnurinn er ætíð sá sami.

More »

12. febrúar 2014 · Slökkt á athugasemdum við Norrænt samstarf í öryggismálum · Categories: Norðurlönd, Öryggis- og varnarmál, Utanríkismál

Norræn samvinna byggir á gömlum merg en á síðustu árum hefur samstarfi í utanríkis- og öryggismálum vaxið fiskur um hrygg. Í þessu sambandi mörkuðu skýrsla Thorvalds Stoltenbergs um aukið samstarf landanna á þessu sviði og norræn samstöðuyfirlýsing um gagnkvæma aðstoð á hættu- og neyðartímum tvímælalaust þáttaskil.

Það fer vel á því að í dag hittist utanríkisráðherrar og varnarmálaráðherrar Norðurlandanna í Keflavík á sama tíma og flugsveitir Norðmanna, Svía og Finna stunda æfingar á Íslandi. Æfingarnar byggja á tillögum Stoltenbergs um norræna loftrýmisgæslu og gefa þátttökulöndunum tækifæri til að samhæfa aðgerðir og efla tengslin sín á milli. Þannig styrkja Norðurlöndin samvinnu sína á heimaslóð en efla jafnframt getu sína til að starfa saman í alþjóðlegum verkefnum.

Aðildin að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin gegna lykilhlutverki í varnarmálum Íslands. Norræna samstarfið er mikilvæg viðbót vegna þess að það nær til margra og ólíkra áhættuþátta, m.a. hernaðarógna, skipulagðrar glæpastarfsemi, hryðjuverka, umhverfisöryggis og netöryggis, svo fátt eitt sé nefnt. Samstarf og æfingar með grannríkjunum gera okkur betur í stakk búin til að vinna með frændþjóðunum og styrkir jafnframt staðarþekkingu erlendu gestanna en hvort tveggja getur reynst mikilvægt ef hætta steðjar að.

Dagskrá ráðherrafundarins í dag endurspeglar þessa auknu breidd í samvinnu landanna. Við munum ræða framtíðarþróun norræna samstarfsins, öryggishorfur á norðurslóðum, verkefni Atlantshafsbandalagsins og hvernig Norðurlöndin geta í sameiningu lagt sín lóð á vogarskálar alþjóðlegrar friðaruppbyggingar.

 

Greinin birtist í Fréttablaðinu og á Vísir.is 12.2.2014