30. janúar 2015 · Slökkt á athugasemdum við Fastur í Staðarskála að óþörfu? · Categories: Landsbyggðin

Sl. sunnudag eyddi ég drjúgum hluta dags og kvölds í Staðarskála ásamt hundruðum ferðalanga. Ástæðan var slæmt veður og færð um Holtavörðuheiði og Laxárdalsheiði skv. upplýsingum Vegagerðarinnar.

Var þjóðveginum um Holtavörðuheiði lokað með slá og gætti lögregla eða björgunarfólk þess að enginn hætti sér á heiðina. Á vef Vegagerðarinnar var Laxárdalsheiði sögð lokuð. Vel fór um okkur í Staðarskála þar sem starfsfólk skálans sinnti fjöldanum með bros á vör, lögreglu og björgunarsveitarfólk svöruðu ótal spurningum okkar og töluðu kjark og jákvæðni í gesti skálans.

Meðal gesta var m.a. rætt hvort Vegagerðin myndi yfirleitt opna aftur yfir Holtavörðuheiði og hvort ekki væri auðveldara að opna Laxárdalsheiði þar sem menn gætu ekið Heydal og mýrarnar í Borgarnes. Menn sem þekktu til minntu á að Laxárdalsheiðin væri yfirleitt snjólétt en þar væri hvasst og hálka hafði verið fyrr um daginn. Hringt var í bændur í Laxárdal sem sögðu veður ekki svo slæmt, nokkur vindur en skyggni væri ágætt þótt dimm él gerði inná milli.

Einhvern tíma um eða eftir kvöldmatarleitið var farið að að huga að því hverjir þyrftu gistingu því útlitið var ekki gott. Ljóst var að hægt var hýsa flest fólkið í nágrenninu en þeir sem lengst fóru óku að Blönduósi. Þegar klukkan fór að nálgast 21 var greint frá því að reyna átti að færa þá bíla sem stífluðu Holtavörðuheiðina og “stinga í gegn” eins og sagt er og ætlaði björgunarsveitafólk að fara svo með bíla og fólk yfir í halarófu.

Mig minnir að klukkan hafi verið um 23 þegar ljóst var að það var ógerningur að opna heiðina.

Vonbrigðin leyndu sér ekki hjá fólki enda voru þarna m.a. einstaklingar sem voru á leið í flug, áttu mikilvæga fundi, fólk með veik börn, fólk með gæludýr, fólk sem þurfti að mæta til vinnu og hópar ungmenna sem þurftu að komast í skólann.

Kl. 23:30 ákvað fólk á fjórum bílum, tveimur jeppum og tveimur 4×4 fólksbílum, að kíkja á Laxárdalsheiðina og sjá hvernig staðan væri. Snúið yrði við ef útlitið væri slæmt. Engin slá var fyrir veginum, engin merki um lokun og engin lögreglu eða björgunarbíll svo ætla mátti að heiðin hefði verið opnuð. Vindur var þá nokkur líklega í kringum 20 m/s, skafrenningur og smá él. Stöku sinnum sást þó blessaður máninn. Þegar á heiðina var komið var nokkuð blint fyrir fremsta bíl en hinir gátu ekið 100 til 200 m á eftir og séð vel ljós næsta bíls. Ekki var vindur til trafala og ekki varð vart við hálku þótt einn bílanna væri ekki á nelgdum dekkjum. Þegar komið var vel niður í Laxárdalinn birti til og hélst svo alla leið til Reykjavíkur nema hvað stöku él létu sjá sig. Um kl 2 um nóttina voru menn komnir til síns heima. Þessa ferð hefði verið hægt að fara á framhjóladrifnum smábíl.

Daginn eftir fréttist af bíl sem hafði farið Laxárdalsheiði í kringum kl. 21 þetta kvöld. Vindur var meiri en skyggni svipað. Hafði ég samband við aðila sem var i þeim bíl og  staðfesti hann að svo hefði verið.

Ljóst er að vandalítið hefði verið fyrir Vegagerðina að “opna” Laxárdalsheiði og koma þannig hundruðum manna til síns heima og spara þannig fólkinu kostnað og mikil óþægindi.

Þá hefði Vegagerðin mögulega getað sparað sér kostnað því björgunarsveitafólk, snjóruðningsmenn og lögregla hefðu mögulega komist fyrr til síns heima.

 

Margar spurningar leita á mann.

  • Hvers vegna sendi Vegagerðin ekki bíl að kanna aðstæður á Laxárdalsheiði?
  • Datt Vegagerðinni ekki í hug að biðja björgunarsveitafólk að fylgja “bílalestinni” Laxárdalinn eða senda sjóruðningstækið sem beið eftir þvi að glíma við Holtavörðuheiðina?
  • Hvernig eru ákvarðanir um lokanir, vegaeftirlit, opnanir og annað teknar hjá Vegagerðinni?

Ég hyggist biðja um svör við þessum spurningum.

Ég vil nota tækifærið og hrósa öllu fólkinu sem eyddi deginum og kvöldinu í Staðarskála fyrir rósemi og glaðværð þrátt fyrir langa bið, sérstaklega unga fólkinu sem lífgaði mjög uppá biðina. Þá vil ég þakka lögreglu, mokstursmönnum, björgunarsveitarfólki og starfsfólki Staðarskála fyrir hjálpsemi og öll brosin sem þetta góða fólk sendi okkur strandaglópunum.

 

 

27. apríl 2013 · Slökkt á athugasemdum við Um hvað er kosið. · Categories: alþingi, Atvinnumál, ESB, Framsókn, Landsbyggðin, Ýmislegt · Tags: , , , ,

Kæru vinir.

Á morgun er kosið um lausnir og framtíðina. Lausnir til að létta á vanda tugþúsunda heimila og hvernig við nýtum tækifæri Íslands og búum í haginn fyrir framtíðina.

Lausn á fjárhagsvanda íslenskra heimila er afar mikilvæg til að heimilin verði virkur þátttakandi í hagkerfinu þar sem þau leika afar stórt hlutverk. Við höfum bent á hvernig það megi gera og ekki er lengur deilt um að þeir fjármunir sem þarf til þess eru til staðar. Deilt er um hvort nota eigi fjármunina fyrir heimilin eða í annað. Við veljum heimilin.

Leita verður allra leiða til að leysa úr flækjum varðandi gengislán fyrirtækja og einstaklinga þar sem fjármálastofnanir hafa dregið að virða niðurstöður dóma.

Kosið er um nýjar hugmyndir í byggðamálum , jöfnun orkukostnaðar og aðrar leiðir til að tryggja búsetujafnrétti. Einnig er kosið um jafnrétti til náms og launa enda óskiljanlegt að kyn ráði launum.

Við kjósum um sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar sem við sýndum í Icesave kosningunum að við metum mikils og framsóknarmenn munu standa áfram vörð um. Því verður ekki haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Tækifærin í helstu atvinnugreinum okkar eru mikil ef við bara berum gæfu til að gefa þeim sem þar starfa færi á að fjárfesta í framtíðinni. Öflugt velferðarkerfi verður aldrei í boði án öflugs atvinnulífs því þar verða tekjur ríkissjóðs til. Við ætlum því að fjölga störfum m.a. með því að búa til hvata fyrir fyrirtæki landsins til vaxtar svo fleiri greiði til samfélagsins. Við viljum forgangsraða í þágu heimila, heilbrigðisþjónustu og öryggis borgaranna ásamt því að leiðrétta kjör aldraðra og öryrkja

 

Verkefnin eru ærin. Með samráði við helstu aðila íslensks efnahagslífs má búa til samfélag sem tryggir stöðugleika og velsæld byggða á þekkingu og skynsamlegri nýtingu auðlinda.

X við B tryggir festu, rökhyggju og skynsemi við stjórn landsins næstu árin.

Gunnar Bragi.

24. nóvember 2012 · Slökkt á athugasemdum við Framboðslisti Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi við alþingiskosningar 2013 · Categories: alþingi, Framsókn, Landsbyggðin, Ýmislegt · Tags: , , ,

1. Gunnar Bragi Sveinsson, alþingismaður, Sauðárkróki
2. Ásmundur Einar Daðason, alþingismaður og bóndi, Lambeyrum
3. Elsa Lára Arnardóttir, kennari og varabæjarfulltrúi, Akranesi
4. Jóhanna M. Sigmundsdóttir, búfræðingur og nemi, Látrum Mjóafirði
5. Sigurður Páll Jónsson, útgerðarmaður, Stykkishólmi
6. Anna María Elíasdóttir, fulltrúi, Hvammstanga
7. Jón Árnason, skipstjóri, Patreksfirði
8. Halldór Logi Friðgeirsson, skipstjóri, Drangsnesi
9. Jenný Lind Egilsdóttir, snyrtifræðingur og varabæjarfulltrúi , Borgarnesi
10. Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn og formaður byggðaráðs, Sauðárkróki
11. Anna Lísa Hilmarsdóttir, bóndi, Sleggjulæk, Borgarfirði
12. Svanlaug Guðnadóttir, hjúkrunarfræðingur, Ísafirði
13. Klara Sveinbjörnsdóttir, nemi, Hvannatúni, Borgarfirði
14. Magnús Pétursson, bóndi, Miðhúsum A-Húnavatnssýslu
15. Gauti Geirsson, nemi, Ísafirði
16. Magdalena Sigurðardóttir, húsmóðir og fyrrv. varaþingmaður, Ísafirði

04. júní 2012 · Slökkt á athugasemdum við Virðingaleysi meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis setur blett á sjómannadagshátíðina · Categories: Landsbyggðin, Niðurskurður, Ríkisstjórnin, Sjávarútvegur · Tags: , , , ,

Oft hafa ríkisstjórnarflokkarnir gengið fram af Íslendingum en nú tekur steininn úr. Ríkisstjórnin lagði fram á lokafresti tvö sjávarútvegsmál sem vísað var til atvinnuveganefndar. Í umsögnum fengu bæði málin falleinkun sem og hjá sérfræðingum er skoðuðu þau. Megin niðurstaða þeirra er sú að frumvörpin eyðileggja íslenskan sjávarútveg. Nærri 35 þúsund Íslendingar hafa beina eða óbeina atvinnu af sjávarútvegi – sjávarklasanum, atvinna þessa fólks er í húfi.

Við alla þá er starfa í sjávarútvegi eða störfum honum tengdum vil ég segja: Örvæntið ekki, fjöldi þingmanna er reiðubúinn að standa vaktina á Alþingi eins lengi og þarf til að koma í veg fyrir að störf ykkar séu lögð í rúst. Ekki bara vegna þess að við skiljum mikilvægi starfa ykkar heldur líka vegna þess að allir aðrir Íslendingar þurfa líka á ykkar störfum að halda. More »

04. apríl 2012 · Slökkt á athugasemdum við Byggðastefna. · Categories: Landsbyggðin, Ýmislegt · Tags: , , , ,

Margt bendir til þess að kostnaður landsbyggðarinnar af höfuðborgarsvæðinu muni aukast stórlega á næstu árum vegna aðgerða stjórnvalda. Með aðgerðum sínum hafa stjórnvöld aukið kostnað landsbyggðarinnar verulega og nægir þar að nefna aukinn kostnað við rekstur bifreiðar, hækkun flugfargjalda og nú eru uppi hugmyndir um að skattleggja sjávarútveginn sérstaklega um tugi milljarða en fyrst og fremst er um landsbyggðarskatt að ræða því stærstur hluti sjávarútvegsins er á landsbyggðinni.

Mikilvægt er að bregðast við og er það t.d. hægt með þrennum aðgerðum.  1. Koma í veg fyrir frekari álögur á landsbyggðina. 2. Tryggja aukið vægi landsbyggðar hjá kjörnum fulltrúum og stjórnsýslu. 3. Beita nýjum aðferðum við jöfnun búsetu og stuðla þannig að búsetujafnrétti.

Tvö þingmál komu fram um miðjan mars er sýna vilja til að skoða nýjar aðferðir. Sigurður Ingi Jóhannsson alþingismaður er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögur um Alþingi um að fela fjármálaráðherra að útfæra reglur um skattafslátt vegna sannanlegs kostnaðar við ferðir til og frá vinnu á skilgreindum atvinnusvæðum. Fyrirkomulag þetta er þekkt m.a. í Danmörku og er til þess fallið að koma til móts við mikinn kostnað þeirra sem sækja þurfa vinnu um lengri veg.

Höskuldur Þórhallsson er fyrsti flutningsmaður tillögu þingflokks framsóknarmanna um mótun byggðastefnu fyrir allt landið. Tillögu greinin hljóðar: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að stofna starfshóp sem vinni að mótun byggðastefnu fyrir allt landið. Starfshópurinn verði skipaður fulltrúum frá sveitarfélögum og ráðuneytum. Starfshópurinn skili tillögum sínum fyrir lok þessa löggjafarþings. Starfshópurinn skoði sérstaklega norsku byggðastefnuna þar sem skattkerfi, afslættir og styrkir eru notaðir með góðum árangri. Meðal þess sem skoðað verði í stefnu Norðmanna er skipting landsins í skattsvæði, skattar og gjöld á einstaklinga og fyrirtæki eftir skattsvæðum, afsláttur námslána, flutningsstyrkir, orkukostnaður o.fl. „

Í þessari tillögu er m.a. lagt til að horft verði til Norðmanna en þeir hafa notað skattkerfið og afslætti til að ná fram búsetujöfnuði. Vonumst við öll til að slíkar tillögur verði skoðaðar af fullri alvöru enda mikilvægt að koma með nýja hugsun í byggðamálin.

Gunnar Bragi.

01. desember 2011 · Slökkt á athugasemdum við Ósanngjarn niðurskurður · Categories: Heilbrigðismál, Landsbyggðin, Niðurskurður, Skagafjörður

Innihald þessarar greinar á við um margar aðrar stofnanir en hér er rætt um inntakið er skýrsla sem Capacent gerði.

Í fyrrnefndri skýrslu sem unnin var fyrir sveitarfélagið Skagafjörð um niðurskurð til Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki (HS) kemur eftirfarandi fram:

1. Á verðlagi ársins 2012 er lækkun fjárveitinga frá 2008 34.1%.
2. Hagvöxtur hefur verið neikvæður í Skagafirði m.a. á góðæristímanum og íbúum hefur fækkað. Lækkun fjárveitinga til HS þykir líkleg til að veikja samfélagið.
3. Aldraðir eru hlutfallslega yfir landsmeðaltali og slakri grunnþjónusta mun fæla frá ungt fólk og hlutfall aldraðra hækka.
4. Þjónusta verður óhagkvæmari og faglega verr stödd við frekari hagræðingu, fagfólki mun fækka.
5. HS hefur verið látin bera meiri samdrátt en aðrar stofnanir án þess að greining á aðstæðum liggur fyrir. More »