16. júlí 2014 · Slökkt á athugasemdum við Nýr forseti framkvæmdastjórnarinnar vill stöðva stækkun ESB · Categories: ESB, Framsókn, Ríkisstjórnin, Utanríkismál

Rikisstjórn Íslands hefur marg lýst því yfir að hún ætlar ekki að halda áfram viðræðum við ESB og hefur hætt öllum samskiptum er lúta að umsókninni enda á móti inngöngu Íslands í ESB.

Nú hefur nýr forseti framkvæmdastjórnar ESB, Jean Claude Junker sagt að ekki verði um frekari stækkun næstu fimm árin. Hann ætli sér að sinna þeim löndum sem nú þegar eru í ESB, þétta raðirnar og vinna á hinum griðarmörgu vandamálum sem sambandið glimir við.

Þetta er i samræmi við min fyrri orð um ESB og að ekki sé rökrett að ganga i sambandið ekki síst þegar óvissan um þróun þess og framtíð er svo mikil. Junker ætlar sér að eigin sögn að taka á mörgum vandamála sambandsins. En miðað við verkefnafjöldann, stærð vandamálanna og þær endurbætur sem vinna þarf í á ESB er ljóst að 5 ár er stuttur timi og liklegra að það taki lengri tima en það að klára vinnuna.

Árni Páll og Össur hafa líklega rétt fyrir sér að það seu amk 10 – 15 ár í að möguleiki sé á inngöngu fyrir Ísland en ekki vegna afturköllunar umsóknar heldur innri vandamála ESB . Vinstri sinnaðir evrópusinnar eru í raun sjálfir komnir að þessari niðurstöðu með því að hvetja til fríverslunarsamninga við fjarlæg lönd í anda framsóknarstefnunar og ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs.

Ljóst er að yfirlýsing Junkers er áfall fyrir JÁ Ísland samtökin og aðra evrópusambandssinna því hún endanlega klárar evrópudraum þeirra, það sem meira er að finna þarf annan tilverurétt fyrir nýjan stjornmálaflokk sem vitað að er í pípunum.

Umræðan ætti að vera hvernig við sjálf getum byggt Ísland upp fremur en að ræða um aðild að sambandi sem á í margvíslegum innri vanda og fyrirséðar lengri tima breytingar þess. Það dugar ekki að bíða eftir því sem ekki kemur.

13. nóvember 2013 · Slökkt á athugasemdum við Hvar er allt fólkið? · Categories: ESB, Skuldamál, Utanríkismál

Þorsteinn Pálsson er um margt geðugur maður og dagsfarsprúður. Því kemur því á óvart hversu ómálefnalegur hann er orðinn þar sem hann stendur upp á kögunarhóli Fréttablaðsins, þar sem hann í þríliðu pönkast á því fólki og flokkum sem ekki vilja ganga í Evrópusambandið. Í því efni liggur honum sérstaklega þungt orð til okkar framsóknarmanna og hefur svo lengi verið.

Á sömu síðu syngur líka sínar rímur Ólafur Stephensen, ritstjóri, sem skrifar annan hvorn leiðara til að dásama ESB.

Ekki fer illa á að þeir séu á sömu síðunni, það er ákveðið hagræði í því.

Þeim báðum til glöggvunar, skal bent á að flokkarnir sem fengu meirihluta í síðustu kosningum voru sammála um tvö stórmál: að hjálpa skuldugum heimilum, með leiðréttingu lána og svo að ekki væri hagstætt fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið.

Mér sýnist að þessir greindu menn hafi misst af þessum meginniðurstöðum kosninganna.

2. nóvember tapar hinn dagfarsprúði Þorsteinn sér hinsvegar alveg og skrifar ósvífna grein sem á að sýna fram á að Framsókn sé ” þjóðernispopulistaflokkur ” Ástæðan fyrir nafngiftinni er sú að við viljum ekki í Evrópusambandið og ætlum að standa við loforð um að létta byrðar almennings í landinu.

Hvaða dónaskapur er það að telja menn einangrunarsinna fyrir að hafa þá skoðun að hagsmunum okkar sé betur borgið utan Evrópusambandsins? Ríkisstjórnin hvetur til samvinnu og aukins samstarfs við Evrópusambandið, Evrópuþjóðir, Kanada, Bandaríkin og Kína, sem og nýrrar sóknar til norðurs.

Einu sinni kom ástsjúkur strákur á bæ og vildi hitta heimasætuna sem hann lagði hug á. Allt heimilisfólkið, alls um tíu manns, sat í baðstofu, nema heimasætan, sem hafði brugðið sér af bæ. Þá spurði stáksi, ” hvar er allt fólkið”?

Sama er með Þorstein og Evrópusambandið.

Af kögunarhólnum er alltaf horft í sömu áttina, “rétt eins og vindhani sem ryðgaður er fastur á bæjarburst”.

Skuldamál heimila voru aðalmál kosninga og Framsóknarflokkurinn hafði ákveðna sýn í þeim málum.

Kjósendur töldu það brýnasta mál samfélagsins og nýlegar kannanir sýna svo ekki verður um villst, að almenningur telur það enn langbrýnasta málið og gnæfir það yfir öll önnur viðfangsefni.

Þorsteinn vogar sér að halda því fram að það sé popúlismi að takast á við brýnasta verkefni samtímans.

Það er honum til vansa. Ég hef velt því fyrir mér hvað gengur eiginlega að manninum og rifjast upp fyrir mér atburðarás sem ég heyrði talað um þegar ég var ungur maður fyrir norðan, en sem kunnugt er afgreiddi ég þar bæði bensín og mokaði skít, ef þess þurfti.

Sagt var að þegar Sjálfstæðisflokkurinn skrapp úr hendi Þorsteins, eftir honum hafði reynst ofviða að stjórna ráðuneyti sem hann veitti forstöðu hafi hann kennt Framsókn um.

Allir vita auðvitað að örlög Þorsteins voru í eigin hendi alltaf og sjálfstæðismenn völdu foringja sem þeir töldu sigurstranglegri, án aðkomu og afskipta fólks úr öðrum flokkum.

Sagt er að Þorsteinn hafi síðan lagt fæð á framsóknarmenn.

Það er tímabært fyrir Þorstein að átta sig á að það voru hans eigin flokksmenn sem höfnuðu honum, líkt og þeir hafa hafnað Evrópusambandinu.

 

18. ágúst 2013 · Slökkt á athugasemdum við Af ESB, IPA og þjóðaratkvæðagreiðslu · Categories: ESB, Ríkisstjórnin, Utanríkismál, Ýmislegt

“Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.” – Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins

ESB

Aðild Íslands að Evrópusambandinu var ekki eitt af stærstu málum kosningabaráttunnar í vetur en flokkarnir upplýstu að sjálfsögðu um fyrirætlanir sínar varðandi málið. Núverandi stjórnarflokkar fóru ekki leynt með þá ætlun sína að ef þeir fengu umboð frá þjóðinni yrði breytt um stefnu. Flokkarnir hlutu meirihluta þingsæta og lýðræðislegan rétt til að fylgja eftir stefnu sinni varðandi ESB og önnur mál.

Í stjórnarsáttmálanum segir að gert verði hlé viðræðunum. Það þýðir að sjálfsögðu að ekki verður meira unnið við aðildarferlið og kröftunum beint í önnur verkefni.  Stöðu viðræðnanna þarf að meta og til grundvallar því liggur stöðuskýrsla frá því í apríl. Verður metið hvort ástæða sé til að skoða ákveðna hluta hennar betur og/eða leita svara við spurningum sem etv. er ekki svarað. jafnframt er ætlunin að leggja mat á þróun Evrópusambandsins frá því að ferlið hófst 2009 og reyna að meta hvernig líklegt er að ESB þróist á næstu árum.

Nýverið birti breska blaðið Daily Mail niðurstöður könnunar sem gerð var meðal íbúa Evrópusambandsins. Spurt var um traust til sambandsins og var niðurstaðan sú að 60% treysta ekki sambandinu. Svo afgerandi lýsing á vantrausti hlýtur að valda stjórnendum ESB áhyggjum.

IPA

Með stöðvun aðildarviðræðna er þó að mörgu að huga, t.a.m. framtíð IPA-verkefna hér á landi.

IPA (Instrument for Pre-Accession Assistance) er samheiti yfir fjölþætta aðstoð sem ESB veitir umsóknarríkjum til að undirbúa aðild. Með það að leiðarljósi var það tekið skýrt fram samhliða stöðvun aðildarviðræðnanna að ekki yrði af IPA verkefnum sem ekki væru hafin að nokkru leyti. Ríkisstjórnin ákvað þó að leggja til að verkefni sem komin voru af stað eða búið var að eyða miklum tíma og kröftum í að undirbúa yrðu kláruð. Á þetta féllst ESB ekki þar sem viðræður um aðild hafa verið stöðvaðar. Ákvörðun Evrópusambandsins um að hætta við styrkina má skilja sem staðfestingu á því að ekki sé lengur litið á Ísland sem ríki í umsóknarferli.

Nokkrar staðreyndir um styrkina:

  • Ekki stendur til að hætta við þau verkefni sem þegar eru hafin, en viðræður um að ljúka þeim fara fram í næsta mánuði. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að ESB muni krefjast endurgreiðslu á þeirri upphæð sem  hefur verið lögð í þau verkefni.
  • Heildarstuðningurinn sem Íslandi stóðtil boða nam um 6,2 ma. kr., þar af voru 5,2 ma. ásvokallaðri landsáætlun sem skipt var áárin 2011, 2012 og 2013.
  • Öll verkefni álandsáætlun 2011, aðupphæð1,8 ma. kr., voru umsamin og hafin utan Matís-verkefnisins sem fellur þ.a.l. niður.
  • Öll verkefni á landsáætlun 2012 og 2013 falla niður, utan eitt sem var hafið; styrkur til að undirbúa stjórnunareiningu fyrir þátttöku í uppbyggingarsjóðunum í atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti af landsáætlun 2012.

Yfirlit yfir landsáætlun – http://www.utanrikisraduneyti.is/media/ipa/Yfirlit-IPA-verkefna-2011-2013.pdf

Verkefnin sem hlotið höfðu brautargengi hjá „commisjóninni“ í Brussel eru mörg áhugaverð og hægt að setja sig í spor þeirra sem að þeim standa, að sækja í þá miklu fjármuni sem ESB bauð uppá. Nú þurfa þessir aðilar að leita leiða til að fjármagna verkefnin með öðrum hætti, fresta þeim, hægja á þeim, hætta við eða forgangsraða.

Evrópusambandið og fyrri stjórnvöld höfðu byggt upp miklar væntingar í kringum IPA styrkina. Á alþingi vöruðu alþingismenn við slíkum væntingum og lýstu sumir efasemdum um réttmæti styrkjanna.

IPA styrkir eða annar hvati frá Evrópusambandinu má ekki vera drifkrafturinn fyrir aðildarumsókn. Hún þarf að byggja á vilja sem flestra Íslendinga til að vilja aðlaga líf sitt að sambandinu.

Þjóðaratkvæðagreiðsla

Í stjórnarsáttmálanum segir að “Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.” Einhverra hluta vegna hefur þessi setning verið túlkuð með ólíkum hætti en ætti ekki að þurfa. Ekki verður um frekari viðræður eða vinnu að ræða þar sem búið er að gera hlé. Fólk getur treyst því að ekki verða viðræður hafnar á ný nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Nýjustu kannanir sýna að 57,4 % Íslendinga eru á móti aðild að Evrópusambandinu. Þar liggja eflaust margar ástæður að baki en staðreyndin er sú að meirihluti þjóðarinnar er á móti aðild.

27. apríl 2013 · Slökkt á athugasemdum við Um hvað er kosið. · Categories: alþingi, Atvinnumál, ESB, Framsókn, Landsbyggðin, Ýmislegt · Tags: , , , ,

Kæru vinir.

Á morgun er kosið um lausnir og framtíðina. Lausnir til að létta á vanda tugþúsunda heimila og hvernig við nýtum tækifæri Íslands og búum í haginn fyrir framtíðina.

Lausn á fjárhagsvanda íslenskra heimila er afar mikilvæg til að heimilin verði virkur þátttakandi í hagkerfinu þar sem þau leika afar stórt hlutverk. Við höfum bent á hvernig það megi gera og ekki er lengur deilt um að þeir fjármunir sem þarf til þess eru til staðar. Deilt er um hvort nota eigi fjármunina fyrir heimilin eða í annað. Við veljum heimilin.

Leita verður allra leiða til að leysa úr flækjum varðandi gengislán fyrirtækja og einstaklinga þar sem fjármálastofnanir hafa dregið að virða niðurstöður dóma.

Kosið er um nýjar hugmyndir í byggðamálum , jöfnun orkukostnaðar og aðrar leiðir til að tryggja búsetujafnrétti. Einnig er kosið um jafnrétti til náms og launa enda óskiljanlegt að kyn ráði launum.

Við kjósum um sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar sem við sýndum í Icesave kosningunum að við metum mikils og framsóknarmenn munu standa áfram vörð um. Því verður ekki haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Tækifærin í helstu atvinnugreinum okkar eru mikil ef við bara berum gæfu til að gefa þeim sem þar starfa færi á að fjárfesta í framtíðinni. Öflugt velferðarkerfi verður aldrei í boði án öflugs atvinnulífs því þar verða tekjur ríkissjóðs til. Við ætlum því að fjölga störfum m.a. með því að búa til hvata fyrir fyrirtæki landsins til vaxtar svo fleiri greiði til samfélagsins. Við viljum forgangsraða í þágu heimila, heilbrigðisþjónustu og öryggis borgaranna ásamt því að leiðrétta kjör aldraðra og öryrkja

 

Verkefnin eru ærin. Með samráði við helstu aðila íslensks efnahagslífs má búa til samfélag sem tryggir stöðugleika og velsæld byggða á þekkingu og skynsamlegri nýtingu auðlinda.

X við B tryggir festu, rökhyggju og skynsemi við stjórn landsins næstu árin.

Gunnar Bragi.

Makríldeilan kom til umræðu fundi utanríkismálanefndar Alþingis fyrir skömmu. Þar lögðu fulltrúar Framsóknarflokksins áherslu á að haldið yrði fast við kröfur Íslendinga í deilunni enda hafi Íslendingar lagt sig fram um að leysa deiluna m.a. með tillögum um að allar þjóðir gæfu eftir í sínum kröfum. Þá lögðum við áherslu á að íslensk stjórnvöld kynntu með afgerandi hætti forystu Íslendinga í vernd fiskistofna og sjálfbærum veiðum. Stjórnvöld hafa því miður látið hjá líða að halda á lofti málstað Íslendinga með afgerandi hætti á alþjóðavettvangi undanfarin ár, nægir þar að nefna Icesave málið. Því er það áhyggjuefni að verulega virðist vanta upp á almenna kynningu erlendis á staðreyndum og málstað Íslendinga í markríldeilunni. More »

14. ágúst 2012 · Slökkt á athugasemdum við Hvað er þetta með VG og ESB ? · Categories: ESB, Ríkisstjórnin, Utanríkismál, Ýmislegt · Tags: , , , , ,

Þann 12. Apríl sl. skrifaði ég grein hér á síðuna sem ég kallaði „ESB lítilsvirðir Ísland og Vinstri Græn syngja með“. Greinin fjallaði um stuðning ESB við málshöfðun fyrir EFTA gegn Íslandi og innihaldslausar yfirlýsingar Vinstri grænna. Líkti ég VG við drenginn í sögunni „Úlfur Úlfur“. Mér sýnist að þingmenn og ráðherra VG hafi ekki lesið þessa grein og þá síður söguna góðu því áfram halda þeir að kalla úlfur úlfur en gera ekkert meir.
Vinstri græn geta stöðvað þessa vonlausu vegferð en vilja það ekki. Þingmenn Vinstri grænna VILJA halda áfram aðildarviðræðum við ESB, annars væru þeir búnir að setja niður hælana.
Nú er svo komið að eingöngu Samfylkingin getur bjargað VG frá því að þurrkast út með því að taka af skarið og stöðva ferlið og þannig mögulega tryggt VG eitthvað fylgi hjá þeim sem verða búnir að gleyma öllum sviknu loforðunum. Samfylkingin er að verða vinalaus í sinni utanríkispólitík og því kann slík björgunaraðgerð að hugnast þeim og tryggja með því áframhaldandi samstarf við VG.
Það yrði skelfilegt. Íslandi þolir ekki annað kjörtímabil afturhalds og skattpíningar.
Gunnar Bragi.

20. apríl 2012 · Slökkt á athugasemdum við Á ekki að bregðast við hótunum ESB? · Categories: ESB, Utanríkismál, Ýmislegt · Tags: , , , , ,

Evrópusambandið boðar þvingunaraðgerðir gagnvart Íslandi vegna Makrílveiða. Talsmaður sjávarútvegsnefndar ESB sakar Íslendinga um rányrkju. Skrítið, því það sem ESB er einna þekktast fyrir er sóðaleg umgengni um sjávarútvegsauðlindina. Ef einhver dugur er í íslenskum stjórnvöldum þá senda þau út yfirlýsingu um að fjölmargir samningafundir hafi verið haldnir, að íslendingar hafi boðið minnkun á heimildum ef aðrir gera það einnig en ESB og Noregur hafi hafnað því. Síðan fari sendinefnd til til Brussel, London, Oslóar, Parísar Vigo, Lissabon, os.frv. og upplýsi ráðamenn og fjölmiðla um sýn Íslands á málið. Skyldu stjórnvöld óttast svo mjög illsku ESB að send verði bréfdúfa með kurteisislegt andvarp ?

Gunnar Bragi.

14. apríl 2012 · Slökkt á athugasemdum við Utanríkisráðherra leyndi alþingi bréfinu · Categories: ESB, Utanríkismál, Ýmislegt · Tags: , , , , , ,

Margir vöruðu við því að utanríkisráðherra færi bæði með stjórn aðildarviðræðna við ESB og varnir okkar í Icesave gagnvart ESA og nú einnig gagnvart ESB. Nýverið var utanríkisráðherra uppvís að því að upplýsa ekki um bréf framkvæmdastjórnar ESB þar sem framkvæmdastjórnin óskar að styðja ólögmætar ásakanir ESA.

Utanríkisráðherra hélt bréfinu leyndu fyrir alþingi, um það verður ekki deilt.

Vinnubrögð ráðherra skipta engu fyrir framhald málsvarnar Íslands en þau skipta miklu máli fyrir samskipti utanríkisráðherra við utanríkismálanefnd.  Þótt ráðherrar VG reyni nú að verja utanríkisráðherra þá dugar það ekki nema etv. til heimabrúks. Er utanríkisráðherra að láta ást sína á Evrópusambandinu trufla dómgreind sína varðandi Icesave máið? Ef svo er, væri það þá í fyrsta sinn? Maður spyr sig.

Gunnar Bragi.

12. apríl 2012 · Slökkt á athugasemdum við ESB lítilsvirðir Ísland og Vinstri græn dansa með. · Categories: ESB, Utanríkismál, Ýmislegt · Tags: , , , , , , , ,

Framkvæmdastjórn Evrópusambandins (ESB) sýnir Íslendingum þann hroka að gerast aðili að dæmalausu máli Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), þrátt fyrir að viðræður um aðild að ESB séu í gangi. Framkvæmdastjórnin hefði alls ekki þurft að gera þetta því einstök ríki hafa fulla heimild til að óska efir aðild að málinu til stuðnings kröfu ESA eða til að styðja málstað Íslendinga. Líklegt verður að teljast að ein af ástæðum þess að ESB fer þessa leið er hræðsla við að eitthvert ESB ríki styðji málstað Íslendinga. Eftir þetta er erfiðara fyrir ríki Evrópusambandsins að taka upp hanskann fyrir Ísland gegn framkvæmdastjórninni. Þá er augljóst að ESB er að sýna Íslendingum hver það er sem ræður og eyjaskeggjar eigi að hafa sig hæga.

Ráðherrar ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna (VG) ásamt formanni utanríkismálanefndar keppast nú við að gera lítið úr málinu. Með ólíkindum verður að teljast að VG ætli enn og aftur að lippast niður fyrir fótum Evrópusambansins og Samfylkingarinnar til þess eins að halda vonlausu stjórnarsamstarfi áfram. Hin meinta andstaða VG við Evrópusambandið minnir á söguna „úlfur úlfur“ . Þingmenn og ráðherrar VG  keppast við að mótmæla viðræðunum og framgöngu ESB, þeir kalla „úlfur úlfur“ en gleyma því að í ævintýrinu át úlfurinn þann sem plataði fólkið því fólkið kom honum ekki til bjargar þegar úlfurinn raunverulega kom. Þannig er saga VG varðandi ESB og þannig mun ævintýrið enda haldi þingmenn og ráðherrar þessu áfram.

Eini möguleiki VG til að öðlast einhvern trúverðugleika er að krefjast þess að viðræðum verði nú þegar hætt. Harðorðar greinar eða blogg gagnast ekkert þegar öllum er ljóst að VG hefur það í hendi sér að segja hingað og ekki lengra. Þráin í völd og góða stóla við stjórnarborðið er loforðum gagnvart kjósendum yfirsterkari og því mun VG ekki styggja Samfylkinguna.

Meðan þetta er ritað er ég þess fullviss að fulltrúar ESB, Samfylkingar og VG eru að bera saman bækur sínar hvernig best sé að láta þessa uppákomu ekki hafa áhrif á aðildarviðræðurnar. Mér sýnist plottið vera það að hluti hópsins muni segja að ákvörðun ESB komi ekki á óvart, að það sé eðlilegt að framkvæmdastjórnin blandi sér í málið og það hafi engin áhrif á viðræðurnar. Hinn hópurinn eigi að gagnrýna ákvörðun ESB án þess að einhver alvara sé þar að baki. Þannig fái allir eitthvað en viðræðurnar geti haldið áfram.

Danski stjórnmálamaðurinn Mogens Glistrup sagði eitt sinn að varnarstefna Danmerkur ætti að vera sú að leggja niður herinn og koma upp sjálfvirkri símsvörun sem segði á rússnesku „við gefumst upp“.  Ríkisstjórn Samfylkingar og VG virðist hafa þessa stefnu gagnvart ESB. Á símsvara hennar er töluð þýska og franska.

Gunnar Bragi.