09. ágúst 2016 · Slökkt á athugasemdum við Mikil neyð stjórnarandstöðunnar · Categories: alþingi

stjornarandstada

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar fóru mikinn í þættinum Sprengisandi sl. sunnudag þar sem þau veittust enn og aftur að persónu formanns Framsóknarflokksins. Þetta er fólkið sem talar um „ný vinnubrögð“. Það eru vissulega ný vinnubrögð að fara sífellt í persónur manna enda hefðu þau annars þurft að hafa eitthvað fram að færa málefnalega.

Auðvitað eru þau fegin að hafa losnað tímabundið við formann Framsóknarflokksins sem leitt hefur til lykta einhver stærstu mál síðari tíma í íslenskum stjórnmálum, mál sem stjórnarandstaðan réð ekki við, og notið til þess traust og stuðning margra. Ótti þeirra við formann Framsóknarflokksins er skiljanlegur en að hafa ekkert fram að færa annað en hagræddan sannleika, óhróður og þvælu ber merki um mikla neyð.

Af orðum andstöðunnar mátti halda að á alþingi ríkti slík hamingja að allir væru komnir í mussur og með blóm í hárinu. En auðvitað hafa þau nú sýnt sitt rétta andlit.

Þau hóta því að taka þingið í gíslingu ef þau fá ekki að ráða. Stöðva á öll mál og ekki hleypa neinu áfram fyrr en þau fái að vita dagsetningu á kosningum. Vitandi það að um leið og dagsetning kemur þá munu þau samt sem áður taka þingið í gíslingu.

Aðferðir þessa fólks eru andstyggilegar, ólýðræðislegar og einkennast af frekju. Við sem störfum á alþingi þekkjum þetta vel því svona hafa þau alltaf unnið þrátt fyrir fagurgalann um „bætt vinnubrögð“ „ný stjórnmál“ os.frv.

Það kemur að því að almenningur sér í gegnum stjórnarandstöðuna.

 

20. mars 2014 · Slökkt á athugasemdum við Skýrsla utanríkisráðherra til Alþingis 2014 · Categories: alþingi, Norðurlönd, Öryggis- og varnarmál, Ríkisstjórnin, Utanríkismál, Ýmislegt

 

  • Ég fylgi hér úr hlaði skýrslu minni til Alþingis um utanríkis- og alþjóðamál. Það er rík hefð fyrir þessari skýrslugjöf hér á Alþingi og umræðum þeim sem á eftir fylgja. Er það ánægjulegt að geta lagt fram eins efnismikla skýrslu og hér er á borðum og er það von mín að um efni hennar geti átt sér stað góðar umræður í dag.

 

  • Staða Íslands í alþjóðsamfélaginu, hlutverk okkar og áherslur er ákaflega mikilvæg umræða. Ekki bara hér á Alþingi heldur í samfélaginu öllu. Er hægt að fullyrða að vandfundin er sú þjóð sem er eins vel upplýst um alþjóðamál og er eins meðvituð um stöðu sína og hlutverk í alþjóðasamfélaginu og við Íslendingar.

 

  • Við erum sjálfstæð, megnug og velmegandi þjóð sem hefur kosið að eiga náið samstarf við nágranna sína, vinaþjóðir og bandamenn. Um meginstef utanríkisstefnu Íslands ríkir í öllum aðalatriðum sátt og hefur svo verið nánast óháð því hvaða stjórnvöld sitja hverju sinni, þótt um einstaka ákvarðanir geti vissulega verið skiptar skoðanir.

 

  • Gegnumsneitt hafa íslensk stjórnvöld leitast við að auka hagsæld á Íslandi með því að opna markaði fyrir íslenska framleiðslu, menningu og hugvit. Með sama hætti hafa stjórnvöld talað röddu Íslands á alþjóðavettvangi svo að sérstaða okkar skiljist og að hagsmunir verði tryggðir. Þá er öryggi lands og þjóðar eitt af megin hlutverkum stjórnvalda. Ísland hefur ávallt farið þá leið að taka þátt í alþjóðasamstarfi, gert samninga við bandamenn okkar um varnir landsins og talað fyrir friði og mannréttindum.

 

  • Í þessari upptalningu birtast meginstefin sem slegin hafa verið í íslenskri utanríkispólitík. Þetta eru sömu stef og meirihluti þjóðar hefur fylkt sér um og þetta er leiðarljós fólksins sem skipar utanríkisþjónustuna.

 

  • Með leyfi forseta: „…„Permanent Mission of Iceland, góðan dag” segir silkimjúk og traustvekjandi kvenmansröddin í símann. Mér líður strax betur, kynni mig og segist vera í nokkrum vanda. „Ég er staddur í Mombasa, vegabréfs- og farmiðalaus. Getið þið hjálpað!” – „JESÚS” segir hljómþýða röddin – missir örlítið taktinn en er snögg að ná fyrri yfirvegun. „Jú, við getum örugglega bjargað því”. Samtalið heldur áfram og námsmaðurinn leggur á skömmu síðar, rólegur og sæll í bragði…

 

  • Þessi tilvitnun er í bloggskrif starfsmanns utanríkisþjónustunnar. Hvers vegna er það nefnt hér í ræðustóli Alþingis? Jú, utanríkis- og alþjóðamál eru lifandi málaflokkur og munu úrlausnir vandamála og stefnubreytingar alltaf taka mið af samspili hagsmuna og hugmynda um samfélag okkar. Með nýjum tímum fylgja ný vinnubrögð. En grunnurinn er ætíð sá sami.

More »

27. apríl 2013 · Slökkt á athugasemdum við Um hvað er kosið. · Categories: alþingi, Atvinnumál, ESB, Framsókn, Landsbyggðin, Ýmislegt · Tags: , , , ,

Kæru vinir.

Á morgun er kosið um lausnir og framtíðina. Lausnir til að létta á vanda tugþúsunda heimila og hvernig við nýtum tækifæri Íslands og búum í haginn fyrir framtíðina.

Lausn á fjárhagsvanda íslenskra heimila er afar mikilvæg til að heimilin verði virkur þátttakandi í hagkerfinu þar sem þau leika afar stórt hlutverk. Við höfum bent á hvernig það megi gera og ekki er lengur deilt um að þeir fjármunir sem þarf til þess eru til staðar. Deilt er um hvort nota eigi fjármunina fyrir heimilin eða í annað. Við veljum heimilin.

Leita verður allra leiða til að leysa úr flækjum varðandi gengislán fyrirtækja og einstaklinga þar sem fjármálastofnanir hafa dregið að virða niðurstöður dóma.

Kosið er um nýjar hugmyndir í byggðamálum , jöfnun orkukostnaðar og aðrar leiðir til að tryggja búsetujafnrétti. Einnig er kosið um jafnrétti til náms og launa enda óskiljanlegt að kyn ráði launum.

Við kjósum um sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar sem við sýndum í Icesave kosningunum að við metum mikils og framsóknarmenn munu standa áfram vörð um. Því verður ekki haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Tækifærin í helstu atvinnugreinum okkar eru mikil ef við bara berum gæfu til að gefa þeim sem þar starfa færi á að fjárfesta í framtíðinni. Öflugt velferðarkerfi verður aldrei í boði án öflugs atvinnulífs því þar verða tekjur ríkissjóðs til. Við ætlum því að fjölga störfum m.a. með því að búa til hvata fyrir fyrirtæki landsins til vaxtar svo fleiri greiði til samfélagsins. Við viljum forgangsraða í þágu heimila, heilbrigðisþjónustu og öryggis borgaranna ásamt því að leiðrétta kjör aldraðra og öryrkja

 

Verkefnin eru ærin. Með samráði við helstu aðila íslensks efnahagslífs má búa til samfélag sem tryggir stöðugleika og velsæld byggða á þekkingu og skynsamlegri nýtingu auðlinda.

X við B tryggir festu, rökhyggju og skynsemi við stjórn landsins næstu árin.

Gunnar Bragi.

17. mars 2013 · Slökkt á athugasemdum við Burtu með verðtrygginguna – leiðréttum stökkbreytt lán. · Categories: alþingi, Framsókn, Skuldamál · Tags: , , , , , , ,

Lausnum framsóknarmanna á skuldum heimilanna og verðtryggingaróværunni má gróflega skipta í þrennt.

 LEIÐRÉTTING LÁNA

Verðtrygging neytendalána getur ekki haldið áfram með sama hætti og verið hefur. Fjáramálastofnanir hafa haft mikinn hag af verðtryggingunni og grætt milljarða á hækkun hennar í boði íslenskra heimila. Framsóknarmenn samþykktu á flokksþingi sínu ályktun vegna skulda heimilanna. Varðliðar verðtryggingarinnar reyna nú að gera framsóknarmenn ótrúverðuga með því að halda því fram að framsóknarmenn hafi lofað því að afnema verðtrygginguna afturvirkt.

Vilhjálmur Birgisson verkalýðsforingi á Akranesi lýsir þessu ágætlega á fésbókarsíðu sinni:  „Djöfull eru margir orðnir hræddir við Framsóknarflokkinn í ljósi þess að þeir mælast nú vel í öllum skoðunarkönnunum. Málið er að það vita allir að ekki er hægt að afnema verðtrygginguna afturvirkt og ég hef aldrei heyrt neinn lofa því.“

Vegna ýmissa atriða verður verðtrygging ekki afnumin að fullu afturvirkt nema hún verði dæmd ólögleg en Verkalýðsfélag Akraess er einmitt með mál í gangi er varðar lögmæti verðtryggingar. Það er hins vegar ekkert sem bannar að lán heimilanna verði leiðrétt, það er bæði rétt og sanngjarnt.

Framsóknarmenn hafa barist allt frá árinu 2009 fyrir því að stökkbreytt verðtryggð lán verði leiðrétt vegna þess forsendubrests sem átti sér stað í fjármálahruninu. Á flokksþingi samþykktum við:

„Framsóknarflokkurinn vill að stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán verði leiðrétt. Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram ítarlegar tillögur til lausnar skuldavanda heimila. Afstaða Framsóknarflokksins er eindregið sú að ekkert geti réttlætt að lánþegar verðtryggðra húsnæðislána sitji einir uppi með afleiðingar þess að lánin stökkbreyttust af völdum efnahagshruns.“

Það að leiðrétta lánin er forsenda þess að heimilin geti aftur orðið virkur þátttakandi í efnahagslífi landsins. Hvernig getum við fjármagnað leiðréttingu lána? T.d. er hægt að nota hluta af þeim fjármunum sem vogunarsjóðir eiga í landinu, til þess þarf vilja og þor. Önnur leið væri að skattleggja hagnað fjármálastofnana og þriðja leiðin væri að blanda þessu saman ásamt því að lífeyrissjóðir og ríkissjóður leggðu til fé.  Þetta er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi.

 AFNÁM VERÐTRYGGINGAR

„Framsóknarflokkurinn vill að verðtrygging á neytendalánum verði afnumin. Lagt er til að skipaður verði starfshópur sérfræðinga er hafi það verkefni að útfæra afnám verðtryggingar nýrra neytendalána. Þessari vinnu verði lokið fyrir árslok 2013.“

Við ætlum að afnema verðtrygginguna á nýjum neytendalánum og beita leiðréttingunni á þau eldri. Við höfum kynnst því sl. 4 ár að verðtryggingin á slíka vini og varðmenn t.d. í Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu,  að þeir svífast einskis til að verja hana. Ástæðan er vitanlega sú að margir hafa mikinn fjárhagslegan hag af verðtryggingunni meðan heimilunum blæðir. Okkar niðurstaða er því sú að afnámið verður ekki gert nema með rökstuddum, útfærðum tillögum og til þess viljum við fá sérfræðinga innlenda og erlenda sem EKKI hafa nein tengsl við varðliða verðtryggingarinnar á Íslandi.

ÞAK Á VERÐTRYGGINGU OFL.

En það þarf að grípa til fleiri aðgerða en leiðréttingar. Við höfum lagt fram frumvarp þar sem m.a. er lagt til að þak t.d. 4% verði sett á verðtrygginguna sem þýðir að fari verðbólgan umfram það sé áhættan lánveitandans. Þá leggjum við til að fjármálastofnunum verði bannað að eiga nema ákv. magn verðtryggðra lána. þetta er mikilvægt til að koma í veg fyrir að þær hafi hag af því að hafa verðbólgu háa. Í þriðja lagi leggjum við til að opinberir aðilar hætti að tengja gjaldahækkanir við vísitölu. Það er óeðlilegt að hækkun á bensíni eða áfengi hækki húsnæðislánin. Ýmislegt fleira leggjum við til í frumvarpinu en þetta eru helstu atriðin.

Til að leiðrétta lánin, afnema verðtryggingu neytendalána og setja þak á vísitöluna þarf vilja og þor. Við munum ekki láta útúrsnúninga eða villandi fréttaflutning draga úr okkur kjarkinn. Við sýndum staðfestu fyrir 20% leiðinni og Icesave og munum sýna það áfram.

Gunnar Bragi

 

19. febrúar 2013 · Slökkt á athugasemdum við Verðtryggingin ólögleg? · Categories: alþingi, Framsókn, Skuldamál, Velferðarmál, Ýmislegt · Tags: , , , , ,

“Framsóknarflokkurinn vill að stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán verði leiðrétt. Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram ítarlegar tillögur til lausnar skuldavanda heimila. Afstaða Framsóknarflokksins er eindregið sú að ekkert geti réttlætt að lánþegar verðtryggðra húsnæðislána sitji einir uppi með afleiðingar þess að lánin stökkbreyttust af völdum efnahagshruns.“
Þetta var meðal þess sem var samþykkt á flokksþingi framsóknarmanna sem fram fór helgina 8.–9. febrúar.
Skilaboð fulltrúa á þinginu til þjóðarinnar eru ótvírætt þau að leita eigi áfram leiða til að leiðrétta verðtryggð húsnæðislán sem stökkbreyttust í efnahagshruninu.
Þingmenn Framsóknarflokksins hafa frá árinu 2009 lagt fram tillögur um leiðréttingar á lánum heimila og aðgerðir til afnáms verðtryggingar á neytendalánum. Því miður hafa tillögurnar ekki náð fram að ganga og því búum við enn við óbreytt ástand. Verðtrygging húsnæðislána hefur lengi sætt mikilli gagnrýni. Eðlilega finnst mörgum undarlegt að þegar kaffi hækkar eða ríkisvaldið eykur álögur á bensín hækki húsnæðislánin þeirra. Margoft hefur verið bent á að verðtrygging sé ekki lögmál.
Brot gegn neytendalögum

En hvað gerist ef verðtrygging húsnæðislána verður dæmd ólögleg? Elvíra Mendez Pinedo, dósent í Evrópurétti við Háskóla Íslands, hefur fært fyrir því sannfærandi rök að verðtrygging brjóti gegn neytendalögum með tvennum hætti. Í fyrsta lagi verði lántakandi að geta séð hvernig höfuðstóll lánsins muni þróast út lánstímann og í öðru lagi megi ekki breyta lánsupphæð eftir á. Þá hefur Verkalýðsfélag Akraness höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur um það hvort verðtrygging standist lög um verðbréfaviðskipti og tilskipun Evrópuréttar.
Hafi Elvíra rétt fyrir sér og/eða ef Héraðsdómur dæmir Verkalýðsfélaginu í hag mun það að sjálfsögðu undirstrika réttlæti og mikilvægi þess að lán verði leiðrétt.
Hvað sem því líður munu þingmenn Framsóknar halda áfram baráttunni fyrir leiðréttingu og afnámi verðtryggingar á nýjum neytendalánum þar sem fátt er jafn mikilvægt og að gera íslenskum fjölskyldum kleift að komast úr fjötrum skulda eins fljótt og frekast er unnt. Það að gera ekki neitt fyrir skuldsettar fjölskyldur getur varla verið valkostur því heimilin eru undirstaða alls efnahagslífsins.

Gunnar Bragi.

03. janúar 2013 · Slökkt á athugasemdum við Stórundarleg viðbrögð við frumkvæði kirkjunnar · Categories: alþingi, Heilbrigðismál, Niðurskurður, Ríkisstjórnin, Velferðarmál, Ýmislegt · Tags: , , , , , ,

Viðbrögð Samfylkingarþingmannsins Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur við frumkvæði þjóðkirkjunnar um að safna fé til tækjakaupa fyrir Landsspítalann eru með ólíkindum.

Svo virðist sem það sé skoðun Samfylkingarinnar að ef aðili sem fær fé á fjárlögum sækist eftir auknum framlögum (sem í tilfelli kirkjunnar snýst um að ríkisvaldið standi við gerða samninga við kirkjuna) þá megi hinn sami ekki beita sér fyrir því að almenningur gefi fé til annars aðila sem fær framlög á fjárlögum!

Þingmaðurinn spyr í viðtali við Ríkisútvarpið hvort þetta samræmist hlutverki þjóðkirkjunnar og finnur að því að Biskup Íslands hafi sagt frá þessu í áramótaávarpi sínu. Þingmaðurinn þarf greinilega að kynna sér starfsemi kirkjunnar því vitanlega samræmist mannúðarstarf hlutverki hennar og hvað er það annað en mannúðarstarf að auka á öryggi sjúklinga? Ef við eigum að hafa skoðun á því sem sagt er í áramótaávörpum þá væri nær að skoða ávarp forsætisráðherra því sá sem skrifaði það er í engum tengslum við íslenskt samfélag.

Kannski er viðkvæmni þingmannsins tilkomin vegna forgangsröðunar stjórnarflokkanna þriggja, Samfylkingar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar, þar sem ekki er forgangsraðað í þágu heilbrigðismála og því sveltur heilbrigðiskerfið með þeim afleiðingum að tæki úreldast, hjúkrunarfólk og læknar segja upp og flytja úr landi.

Auðvitað er það frábært að þjóðkirkjan skuli hafa frumkvæði að því að safna fé fyrir Landsspítalann og minni ég á að þegar að söfnuninni kemur  að upphæðin sem við gefum skiptir ekki megin máli heldur samhugurinn.

Gunnar Bragi.

24. nóvember 2012 · Slökkt á athugasemdum við Framboðslisti Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi við alþingiskosningar 2013 · Categories: alþingi, Framsókn, Landsbyggðin, Ýmislegt · Tags: , , ,

1. Gunnar Bragi Sveinsson, alþingismaður, Sauðárkróki
2. Ásmundur Einar Daðason, alþingismaður og bóndi, Lambeyrum
3. Elsa Lára Arnardóttir, kennari og varabæjarfulltrúi, Akranesi
4. Jóhanna M. Sigmundsdóttir, búfræðingur og nemi, Látrum Mjóafirði
5. Sigurður Páll Jónsson, útgerðarmaður, Stykkishólmi
6. Anna María Elíasdóttir, fulltrúi, Hvammstanga
7. Jón Árnason, skipstjóri, Patreksfirði
8. Halldór Logi Friðgeirsson, skipstjóri, Drangsnesi
9. Jenný Lind Egilsdóttir, snyrtifræðingur og varabæjarfulltrúi , Borgarnesi
10. Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn og formaður byggðaráðs, Sauðárkróki
11. Anna Lísa Hilmarsdóttir, bóndi, Sleggjulæk, Borgarfirði
12. Svanlaug Guðnadóttir, hjúkrunarfræðingur, Ísafirði
13. Klara Sveinbjörnsdóttir, nemi, Hvannatúni, Borgarfirði
14. Magnús Pétursson, bóndi, Miðhúsum A-Húnavatnssýslu
15. Gauti Geirsson, nemi, Ísafirði
16. Magdalena Sigurðardóttir, húsmóðir og fyrrv. varaþingmaður, Ísafirði