09. ágúst 2016 · Slökkt á athugasemdum við Mikil neyð stjórnarandstöðunnar · Categories: alþingi

stjornarandstada

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar fóru mikinn í þættinum Sprengisandi sl. sunnudag þar sem þau veittust enn og aftur að persónu formanns Framsóknarflokksins. Þetta er fólkið sem talar um „ný vinnubrögð“. Það eru vissulega ný vinnubrögð að fara sífellt í persónur manna enda hefðu þau annars þurft að hafa eitthvað fram að færa málefnalega.

Auðvitað eru þau fegin að hafa losnað tímabundið við formann Framsóknarflokksins sem leitt hefur til lykta einhver stærstu mál síðari tíma í íslenskum stjórnmálum, mál sem stjórnarandstaðan réð ekki við, og notið til þess traust og stuðning margra. Ótti þeirra við formann Framsóknarflokksins er skiljanlegur en að hafa ekkert fram að færa annað en hagræddan sannleika, óhróður og þvælu ber merki um mikla neyð.

Af orðum andstöðunnar mátti halda að á alþingi ríkti slík hamingja að allir væru komnir í mussur og með blóm í hárinu. En auðvitað hafa þau nú sýnt sitt rétta andlit.

Þau hóta því að taka þingið í gíslingu ef þau fá ekki að ráða. Stöðva á öll mál og ekki hleypa neinu áfram fyrr en þau fái að vita dagsetningu á kosningum. Vitandi það að um leið og dagsetning kemur þá munu þau samt sem áður taka þingið í gíslingu.

Aðferðir þessa fólks eru andstyggilegar, ólýðræðislegar og einkennast af frekju. Við sem störfum á alþingi þekkjum þetta vel því svona hafa þau alltaf unnið þrátt fyrir fagurgalann um „bætt vinnubrögð“ „ný stjórnmál“ os.frv.

Það kemur að því að almenningur sér í gegnum stjórnarandstöðuna.