30. janúar 2015 · Slökkt á athugasemdum við Fastur í Staðarskála að óþörfu? · Categories: Landsbyggðin

Sl. sunnudag eyddi ég drjúgum hluta dags og kvölds í Staðarskála ásamt hundruðum ferðalanga. Ástæðan var slæmt veður og færð um Holtavörðuheiði og Laxárdalsheiði skv. upplýsingum Vegagerðarinnar.

Var þjóðveginum um Holtavörðuheiði lokað með slá og gætti lögregla eða björgunarfólk þess að enginn hætti sér á heiðina. Á vef Vegagerðarinnar var Laxárdalsheiði sögð lokuð. Vel fór um okkur í Staðarskála þar sem starfsfólk skálans sinnti fjöldanum með bros á vör, lögreglu og björgunarsveitarfólk svöruðu ótal spurningum okkar og töluðu kjark og jákvæðni í gesti skálans.

Meðal gesta var m.a. rætt hvort Vegagerðin myndi yfirleitt opna aftur yfir Holtavörðuheiði og hvort ekki væri auðveldara að opna Laxárdalsheiði þar sem menn gætu ekið Heydal og mýrarnar í Borgarnes. Menn sem þekktu til minntu á að Laxárdalsheiðin væri yfirleitt snjólétt en þar væri hvasst og hálka hafði verið fyrr um daginn. Hringt var í bændur í Laxárdal sem sögðu veður ekki svo slæmt, nokkur vindur en skyggni væri ágætt þótt dimm él gerði inná milli.

Einhvern tíma um eða eftir kvöldmatarleitið var farið að að huga að því hverjir þyrftu gistingu því útlitið var ekki gott. Ljóst var að hægt var hýsa flest fólkið í nágrenninu en þeir sem lengst fóru óku að Blönduósi. Þegar klukkan fór að nálgast 21 var greint frá því að reyna átti að færa þá bíla sem stífluðu Holtavörðuheiðina og “stinga í gegn” eins og sagt er og ætlaði björgunarsveitafólk að fara svo með bíla og fólk yfir í halarófu.

Mig minnir að klukkan hafi verið um 23 þegar ljóst var að það var ógerningur að opna heiðina.

Vonbrigðin leyndu sér ekki hjá fólki enda voru þarna m.a. einstaklingar sem voru á leið í flug, áttu mikilvæga fundi, fólk með veik börn, fólk með gæludýr, fólk sem þurfti að mæta til vinnu og hópar ungmenna sem þurftu að komast í skólann.

Kl. 23:30 ákvað fólk á fjórum bílum, tveimur jeppum og tveimur 4×4 fólksbílum, að kíkja á Laxárdalsheiðina og sjá hvernig staðan væri. Snúið yrði við ef útlitið væri slæmt. Engin slá var fyrir veginum, engin merki um lokun og engin lögreglu eða björgunarbíll svo ætla mátti að heiðin hefði verið opnuð. Vindur var þá nokkur líklega í kringum 20 m/s, skafrenningur og smá él. Stöku sinnum sást þó blessaður máninn. Þegar á heiðina var komið var nokkuð blint fyrir fremsta bíl en hinir gátu ekið 100 til 200 m á eftir og séð vel ljós næsta bíls. Ekki var vindur til trafala og ekki varð vart við hálku þótt einn bílanna væri ekki á nelgdum dekkjum. Þegar komið var vel niður í Laxárdalinn birti til og hélst svo alla leið til Reykjavíkur nema hvað stöku él létu sjá sig. Um kl 2 um nóttina voru menn komnir til síns heima. Þessa ferð hefði verið hægt að fara á framhjóladrifnum smábíl.

Daginn eftir fréttist af bíl sem hafði farið Laxárdalsheiði í kringum kl. 21 þetta kvöld. Vindur var meiri en skyggni svipað. Hafði ég samband við aðila sem var i þeim bíl og  staðfesti hann að svo hefði verið.

Ljóst er að vandalítið hefði verið fyrir Vegagerðina að “opna” Laxárdalsheiði og koma þannig hundruðum manna til síns heima og spara þannig fólkinu kostnað og mikil óþægindi.

Þá hefði Vegagerðin mögulega getað sparað sér kostnað því björgunarsveitafólk, snjóruðningsmenn og lögregla hefðu mögulega komist fyrr til síns heima.

 

Margar spurningar leita á mann.

  • Hvers vegna sendi Vegagerðin ekki bíl að kanna aðstæður á Laxárdalsheiði?
  • Datt Vegagerðinni ekki í hug að biðja björgunarsveitafólk að fylgja “bílalestinni” Laxárdalinn eða senda sjóruðningstækið sem beið eftir þvi að glíma við Holtavörðuheiðina?
  • Hvernig eru ákvarðanir um lokanir, vegaeftirlit, opnanir og annað teknar hjá Vegagerðinni?

Ég hyggist biðja um svör við þessum spurningum.

Ég vil nota tækifærið og hrósa öllu fólkinu sem eyddi deginum og kvöldinu í Staðarskála fyrir rósemi og glaðværð þrátt fyrir langa bið, sérstaklega unga fólkinu sem lífgaði mjög uppá biðina. Þá vil ég þakka lögreglu, mokstursmönnum, björgunarsveitarfólki og starfsfólki Staðarskála fyrir hjálpsemi og öll brosin sem þetta góða fólk sendi okkur strandaglópunum.