09. ágúst 2016 · Slökkt á athugasemdum við Mikil neyð stjórnarandstöðunnar · Categories: alþingi

stjornarandstada

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar fóru mikinn í þættinum Sprengisandi sl. sunnudag þar sem þau veittust enn og aftur að persónu formanns Framsóknarflokksins. Þetta er fólkið sem talar um „ný vinnubrögð“. Það eru vissulega ný vinnubrögð að fara sífellt í persónur manna enda hefðu þau annars þurft að hafa eitthvað fram að færa málefnalega.

Auðvitað eru þau fegin að hafa losnað tímabundið við formann Framsóknarflokksins sem leitt hefur til lykta einhver stærstu mál síðari tíma í íslenskum stjórnmálum, mál sem stjórnarandstaðan réð ekki við, og notið til þess traust og stuðning margra. Ótti þeirra við formann Framsóknarflokksins er skiljanlegur en að hafa ekkert fram að færa annað en hagræddan sannleika, óhróður og þvælu ber merki um mikla neyð.

Af orðum andstöðunnar mátti halda að á alþingi ríkti slík hamingja að allir væru komnir í mussur og með blóm í hárinu. En auðvitað hafa þau nú sýnt sitt rétta andlit.

Þau hóta því að taka þingið í gíslingu ef þau fá ekki að ráða. Stöðva á öll mál og ekki hleypa neinu áfram fyrr en þau fái að vita dagsetningu á kosningum. Vitandi það að um leið og dagsetning kemur þá munu þau samt sem áður taka þingið í gíslingu.

Aðferðir þessa fólks eru andstyggilegar, ólýðræðislegar og einkennast af frekju. Við sem störfum á alþingi þekkjum þetta vel því svona hafa þau alltaf unnið þrátt fyrir fagurgalann um „bætt vinnubrögð“ „ný stjórnmál“ os.frv.

Það kemur að því að almenningur sér í gegnum stjórnarandstöðuna.

 

02. ágúst 2016 · Slökkt á athugasemdum við Arður af auðlindum · Categories: Atvinnumál, Framsókn, Sjávarútvegur

Líkt og með okkur Íslend­inga hér áður fyrr snýst til­veran í Fær­eyjum að mestu leiti um fisk en 95 pró­sent af útflutn­ings­tekjum Fær­ey­inga eru af fisk og fiskaf­urð­um. Þannig liggja miklir hags­munir í því að sem mest fáist fyrir afurð­irnar fyrir fyr­ir­tæk­in, rík­is­sjóð og sam­fé­lagið allt en vel hefur gengið hjá nágrönnum okkar og síð­ast­liðin 20 ár hefur útflutn­ingur þeirra rúm­lega tvö­fald­ast.

Fær­ey­ingar fóru nýlega að bjóða afla­heim­ildir á upp­boðs­mark­aði í til­rauna­skyni en áætlað er að um tíu pró­sent af heild­ar­kvóta þeirra verði boð­inn upp með þessum hætti í júlí og ágúst á þessu ári. Eru þetta tíma­mót á langri veg­ferð Fær­ey­inga í breyt­ingum á fisk­veiði­stjórn­un­ar­kerfi þeirra því árið 2007 ákvað þingið þeirra að fella niður öll almenn veiði­leyfi fiski­skipa á tíu árum (sem verður í jan­úar 2018).

Ýmis vand­kvæði hafa verið við áætl­un­ina. Við­brögð sjáv­ar­út­vegs­ins hafa verið nei­kvæð og almenn­ingur hefur blendnar til­finn­ingar til breyt­inga á sjáv­ar­út­vegs­kerf­inu sam­kvæmt skoð­ana­könn­un­um. Póli­tísk umræða hefur þannig að mestu snú­ist um breyt­ing­arnar framundan með stóru spurn­ing­unni, hvernig eigi að taka gjald af auð­lind­inni. Fær­ey­ingar byrj­uðu að inn­heimta veiði­gjald árið 2011 fyrir eina fisk­teg­und. Árlegar breyt­ingar hafa svo verið á veiði­gjaldi síð­ast­liðin þrjú ár. Hafa þeir fjölgað þeim teg­undum sem tekið er gjald fyrir upp í þrjár árið 2015 eða nánar til­tekið síld, mak­ríl og kolmunna.

Þær raddir hafa heyrst að aukin öflun tekna af fisk­veiðum fyrir rík­is­sjóð sé til­komin vegna mögu­legs sjálf­stæðis Fær­eyja. Enn er þó of snemmt að segja til hvort það gangi eftir og hvort póli­tísk sátt náist um leið­ina sem valin verð­ur. Umræðan í Fær­eyjum um fram­tíð­ar­fyr­ir­komu­lag fisk­veiða verður lík­lega hávær­ust í lok þessa árs þegar skila á skýrslu um málið og árið 2017. Ef þessar breyt­ingar eiga hins vegar að verða var­an­legar verða þær að taka gildi fyrir jan­úar 2018.

Fyrir okkur Íslend­inga er þetta áhuga­verð til­raun sem vert er að fylgj­ast með.  Fær­ey­ingar eru í upp­hafs­skrefum fer­ils­ins og hægt er að læra af þeirra reynslu. Fyrir Ísland sem hefur siglt í gegnum mik­inn öldu­sjó í mál­efnum sjáv­ar­út­vegs hefur okkur tek­ist með elju að skapa hér­lendis blóm­lega atvinnu­grein sem í dag skilar arði og nýsköp­un. Við tökum veiði­gjald af tugum teg­unda og fáum millj­arða til rík­is­ins árlega í arð fyrir rík­i­s­jóð. Okkar fyr­ir­komu­lag er þó ekki án galla og mik­il­vægt er að fylgj­ast með hvað aðrir gera.

Í því sam­hengi þarf að færa umræð­una um afnota­gjald fyrir auð­lindir yfir á allar auð­lind­ir. Finna kerfi sem hægt er að beita á allar þær auð­lindir þar sem greitt er fyrir afnot af eða ætti að greiða fyr­ir. Ég tel fýsi­leg­ast að beita skatt­kerf­inu til þess. Fyrst þarf þó að byrja á að skil­greina hvað eru auð­lindir og taka síðan ákvörðun um hvort við viljum yfir­leitt að greitt sé gjald fyrir afnot af þeim.

Við í Fram­sókn hefðum viljað sjá nátt­úru­auð­lindum lands­ins komið tryggi­lega fyrir í eigu þjóð­ar­inn­ar. Það hefur þó ekki náðst meiri­hluti fyrir því enn sem komið er. Sú breyt­ing og jafn­vel fleiri er fyr­ir­sjá­an­legt að ráð­ast þurfi í á næstu árum af skyn­semi og var­færni.

28. júlí 2016 · Slökkt á athugasemdum við Landið allt í byggð! · Categories: Ýmislegt

Einn af þeim málaflokkum sem ég er að takast á við þessa dagana eru byggðamál. Þrátt fyrir góðan vilja hefur ekki tekist með fullnægjandi hætti að sporna við þeim raunveruleika að sumar byggðir í landinu þurfi stanslaust að standa í baráttu við að verja sinn hlut og berjast gegn því að þjónusta minnki og að fólki fækki.

Skattkerfið

Þessu þarf að breyta. Við Íslendingar erum hinsvegar ekki eina þjóðin sem glímir við þennan vanda. Um allan heim hefur þessi þróun átt sér stað og því ekki úr vegi að líta á hvaða úrræði hafa gagnast vel þar.

Í Noregi, Danmörku og Svíþjóð hefur skattkerfinu verið beitt til þess að styrkja byggðir og skapa þannig jákvæða hvata fyrir fólk að setjast að á dreifbýlum svæðum og hefur árangurinn af þessum aðgerðum verið góður. Það er okkur lífsnauðsynlegt að hringinn í kringum landið sé blómleg byggð og það er ekki bara tilfinning heldur einnig þjóðhagslega mikilvæg aðgerð.

Í ljósi þess hef ég því sett af stað vinnu sem miðar að því að skoða hvernig beita megi skattkerfinu  með það að augnarmiði að styrkja byggðir landsins. Byggðastofnun leiðir þá vinnu.

Þetta er í takt við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkana sem innihélt sérstakan kafla um byggðamál og þar er lögð rík áhersla á að ná árangri í byggðamálum.

Opinber störf

Á seinustu árum hefur orðið mikil þróun er varðar möguleika til þess að störf geti verið án staðsetningar þökk sé tækniframförum og breyttum viðhorfum. Þetta gefur opinberum stofnunum svigrúm til þess að dreifa sínum starfsmönnum um landið þar sem starfsmenn geta valið sér sína starfsstöð og hafa nokkrar stofnanir gert það með góðum árangri. Það er ekkert lögmál að opinber störf skuli geirnegld á höfuðborgarsvæðið. Aðalmarkmið ríkisins hlýtur þó alltaf að vera að tryggja góða innviði svo mismunandi svæði á landinu séu samkeppnishæf og fjölbreytt atvinnulíf geti dafnað.

Byggðaáætlun

Um áramótin hófst svo vinna við að móta nýja byggðaáætlun til næstu sjö ára. Unnið er eftir nýjum lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir sem samþykkt voru á Alþingi sl. sumar. Við gerð byggðaáætlunar er haft viðamikið samráð við ráðuneyti, sveitarfélög og landshlutasamtök sveitarfélaga. Þar að auki getur almenningur sent inn tillögur á heimasíðu Byggðastofnunar.   Með þessu næst yfirsýn yfir aðgerðir í byggðamálum þvert á stjórnsýsluna og áhersluatriði heimamanna fá að njóta sín.

Eitt af þeim atriðum sem við leggjum áherslu á er að íbúar landsins alls njóti sömu tækifæra hvað varðar aðgengi að opinberri grunnþjónustu. Þar er um að ræða helstu svið opinberrar þjónustu svo sem heilbrigðisþjónustu, menntun, samgöngur, fjarskipti, löggæslu og menningu.

Að lokum

Það er okkur lífsnauðsynlegt sem þjóð að standa saman að uppbyggingu og framförum. Við verðum því að sameinast um að ráðast í aðgerðir sem tryggja að íbúar um land allt fái notið þeirrar þjónustu sem kröfur eru gerðar um í nútímasamfélagi.

 

Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs, landbúnaðar og byggðamálaráðherra

05. júlí 2016 · Slökkt á athugasemdum við  Ávarp á landsmóti hestamanna 2016 · Categories: Landbúnaður, Skagafjörður

 

Hólum, Hjaltadal 30. Júní 2016

Ágætu landsmótsgestir og Skagfirðingar, gleðilega hátíð og til hamingju með íslenska hestinn. Velkomin heim að Hólum!

 

Heiðurinn er minn að fá að vera hérna með ykkur  „heima að Hólum“ þar sem afi minn menntaði sig. Að vera hér sem landbúnaðarráðherra er mér sérstaklega ánægjulegt. Heimsókn Online Casino Game og vinna!

Sjálfum finnst mér fátt jafn gaman og að horfa á glæsileg hross, frábæra knapa.

Það er viðeigandi að landsmót hestamanna fari fram hér að Hólum enda eru Hólar Mekka íslenska hestsins þar sem nemendur geta tekið háskólapróf í reiðmennsku og reiðkennslu —  og í hestafræðum svo eitthvað sé nefnt, og Hólahrossin hafa lengi borið staðnum gott vitni.

Saga íslenska hestsins er einnig nátengd staðnum. Ekki langt frá þessum merka stað, þar sem biskupar norðursins höfðu aðsetur, er Kolkuós. Ein elsta frásögn um hross á Íslandi er einmitt frásögnin af því þegar skip sem hlaðið var búfé kom í Kolkuós.

Þar keypti Þórir dúfunef sér unghross sem hann kallaði Flugu og þótti „allra hrossa skjótast“. Fluga eignaðist hestfolald að nafni Eiðfaxi sem  síðar var fluttur til Noregs, var mjög óstýrilátur og varð þar flokki manna að bana.

Eins og við sjáum er nú öldin önnur; íslenski hesturinn vekur alls staðar hrifningu og er hugljúfi eigendum sínum víða um heim.

Fluga hins vegar týndist í feni á Flugumýri.

Og sem betur fer fór þetta ekki á hinn veginn, Eiðfaxamýrarbrenna á sturlungaöld hljómar ekki alveg nógu vel.

Það er einnig vel við hæfi að afhjúpa hér á eftir minnisvarða hér að Hólum um leiðtogann Svein Guðmundsson. Sveini og reyndar mörgum öðrum eiga Skagfirðingar mikið að þakka er kemur að hestamennskunni. Við sem þekktum Svein vitum hversu hestamennskan, ræktunin, aðstaða og orðspor hestsins var honum mikilvægt. Hann barðist fyrir þessu öllu af sinni alkunnu eftirfylgni og ákefð og uppskar eftir því. Við starfi Sveins tóku Guðmundur, Auður og fjölskylda og áfram vex hróður starfs þeirra allra.

More »

30. janúar 2015 · Slökkt á athugasemdum við Fastur í Staðarskála að óþörfu? · Categories: Landsbyggðin

Sl. sunnudag eyddi ég drjúgum hluta dags og kvölds í Staðarskála ásamt hundruðum ferðalanga. Ástæðan var slæmt veður og færð um Holtavörðuheiði og Laxárdalsheiði skv. upplýsingum Vegagerðarinnar.

Var þjóðveginum um Holtavörðuheiði lokað með slá og gætti lögregla eða björgunarfólk þess að enginn hætti sér á heiðina. Á vef Vegagerðarinnar var Laxárdalsheiði sögð lokuð. Vel fór um okkur í Staðarskála þar sem starfsfólk skálans sinnti fjöldanum með bros á vör, lögreglu og björgunarsveitarfólk svöruðu ótal spurningum okkar og töluðu kjark og jákvæðni í gesti skálans.

Meðal gesta var m.a. rætt hvort Vegagerðin myndi yfirleitt opna aftur yfir Holtavörðuheiði og hvort ekki væri auðveldara að opna Laxárdalsheiði þar sem menn gætu ekið Heydal og mýrarnar í Borgarnes. Menn sem þekktu til minntu á að Laxárdalsheiðin væri yfirleitt snjólétt en þar væri hvasst og hálka hafði verið fyrr um daginn. Hringt var í bændur í Laxárdal sem sögðu veður ekki svo slæmt, nokkur vindur en skyggni væri ágætt þótt dimm él gerði inná milli.

Einhvern tíma um eða eftir kvöldmatarleitið var farið að að huga að því hverjir þyrftu gistingu því útlitið var ekki gott. Ljóst var að hægt var hýsa flest fólkið í nágrenninu en þeir sem lengst fóru óku að Blönduósi. Þegar klukkan fór að nálgast 21 var greint frá því að reyna átti að færa þá bíla sem stífluðu Holtavörðuheiðina og “stinga í gegn” eins og sagt er og ætlaði björgunarsveitafólk að fara svo með bíla og fólk yfir í halarófu.

Mig minnir að klukkan hafi verið um 23 þegar ljóst var að það var ógerningur að opna heiðina.

Vonbrigðin leyndu sér ekki hjá fólki enda voru þarna m.a. einstaklingar sem voru á leið í flug, áttu mikilvæga fundi, fólk með veik börn, fólk með gæludýr, fólk sem þurfti að mæta til vinnu og hópar ungmenna sem þurftu að komast í skólann.

Kl. 23:30 ákvað fólk á fjórum bílum, tveimur jeppum og tveimur 4×4 fólksbílum, að kíkja á Laxárdalsheiðina og sjá hvernig staðan væri. Snúið yrði við ef útlitið væri slæmt. Engin slá var fyrir veginum, engin merki um lokun og engin lögreglu eða björgunarbíll svo ætla mátti að heiðin hefði verið opnuð. Vindur var þá nokkur líklega í kringum 20 m/s, skafrenningur og smá él. Stöku sinnum sást þó blessaður máninn. Þegar á heiðina var komið var nokkuð blint fyrir fremsta bíl en hinir gátu ekið 100 til 200 m á eftir og séð vel ljós næsta bíls. Ekki var vindur til trafala og ekki varð vart við hálku þótt einn bílanna væri ekki á nelgdum dekkjum. Þegar komið var vel niður í Laxárdalinn birti til og hélst svo alla leið til Reykjavíkur nema hvað stöku él létu sjá sig. Um kl 2 um nóttina voru menn komnir til síns heima. Þessa ferð hefði verið hægt að fara á framhjóladrifnum smábíl.

Daginn eftir fréttist af bíl sem hafði farið Laxárdalsheiði í kringum kl. 21 þetta kvöld. Vindur var meiri en skyggni svipað. Hafði ég samband við aðila sem var i þeim bíl og  staðfesti hann að svo hefði verið.

Ljóst er að vandalítið hefði verið fyrir Vegagerðina að “opna” Laxárdalsheiði og koma þannig hundruðum manna til síns heima og spara þannig fólkinu kostnað og mikil óþægindi.

Þá hefði Vegagerðin mögulega getað sparað sér kostnað því björgunarsveitafólk, snjóruðningsmenn og lögregla hefðu mögulega komist fyrr til síns heima.

 

Margar spurningar leita á mann.

  • Hvers vegna sendi Vegagerðin ekki bíl að kanna aðstæður á Laxárdalsheiði?
  • Datt Vegagerðinni ekki í hug að biðja björgunarsveitafólk að fylgja “bílalestinni” Laxárdalinn eða senda sjóruðningstækið sem beið eftir þvi að glíma við Holtavörðuheiðina?
  • Hvernig eru ákvarðanir um lokanir, vegaeftirlit, opnanir og annað teknar hjá Vegagerðinni?

Ég hyggist biðja um svör við þessum spurningum.

Ég vil nota tækifærið og hrósa öllu fólkinu sem eyddi deginum og kvöldinu í Staðarskála fyrir rósemi og glaðværð þrátt fyrir langa bið, sérstaklega unga fólkinu sem lífgaði mjög uppá biðina. Þá vil ég þakka lögreglu, mokstursmönnum, björgunarsveitarfólki og starfsfólki Staðarskála fyrir hjálpsemi og öll brosin sem þetta góða fólk sendi okkur strandaglópunum.

 

 

16. júlí 2014 · Slökkt á athugasemdum við Nýr forseti framkvæmdastjórnarinnar vill stöðva stækkun ESB · Categories: ESB, Framsókn, Ríkisstjórnin, Utanríkismál

Rikisstjórn Íslands hefur marg lýst því yfir að hún ætlar ekki að halda áfram viðræðum við ESB og hefur hætt öllum samskiptum er lúta að umsókninni enda á móti inngöngu Íslands í ESB.

Nú hefur nýr forseti framkvæmdastjórnar ESB, Jean Claude Junker sagt að ekki verði um frekari stækkun næstu fimm árin. Hann ætli sér að sinna þeim löndum sem nú þegar eru í ESB, þétta raðirnar og vinna á hinum griðarmörgu vandamálum sem sambandið glimir við.

Þetta er i samræmi við min fyrri orð um ESB og að ekki sé rökrett að ganga i sambandið ekki síst þegar óvissan um þróun þess og framtíð er svo mikil. Junker ætlar sér að eigin sögn að taka á mörgum vandamála sambandsins. En miðað við verkefnafjöldann, stærð vandamálanna og þær endurbætur sem vinna þarf í á ESB er ljóst að 5 ár er stuttur timi og liklegra að það taki lengri tima en það að klára vinnuna.

Árni Páll og Össur hafa líklega rétt fyrir sér að það seu amk 10 – 15 ár í að möguleiki sé á inngöngu fyrir Ísland en ekki vegna afturköllunar umsóknar heldur innri vandamála ESB . Vinstri sinnaðir evrópusinnar eru í raun sjálfir komnir að þessari niðurstöðu með því að hvetja til fríverslunarsamninga við fjarlæg lönd í anda framsóknarstefnunar og ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs.

Ljóst er að yfirlýsing Junkers er áfall fyrir JÁ Ísland samtökin og aðra evrópusambandssinna því hún endanlega klárar evrópudraum þeirra, það sem meira er að finna þarf annan tilverurétt fyrir nýjan stjornmálaflokk sem vitað að er í pípunum.

Umræðan ætti að vera hvernig við sjálf getum byggt Ísland upp fremur en að ræða um aðild að sambandi sem á í margvíslegum innri vanda og fyrirséðar lengri tima breytingar þess. Það dugar ekki að bíða eftir því sem ekki kemur.

12. apríl 2014 · Slökkt á athugasemdum við Orka, fiskur og jafnrétti · Categories: Ýmislegt

Alþjóðleg þróunarsamvinna er ein af meginstoðum íslenskrar utanríkisstefnu. Við leggjum áherslu á stuðning við fátækustu ríki heims og fátækt fólk í ríkjum þar sem gæðum er misskipt.

Alþjóðabankinn gegnir lykilhlutverki í fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands, enda meðal stærstu og áhrifamestu alþjóðastofnana á sviði þróunarsamvinnu. Með virkri þátttöku Íslands á vettvangi bankans leggjum við okkar af mörkum til efnahagslegrar og félagslegrar uppbyggingar þróunarlanda. Þar lætur Ísland sérstaklega til sín taka á sviði orku- og fiskimála, auk sérstaks stuðnings við jafnréttismál.

Við höfum orðið vör við mikinn áhuga hjá þróunarríkjum á samstarfi á þessum sviðum enda gegna þau mikilvægu hlutverki þegar kemur að því að stuðla að aukinni framþróun og hagvexti í þróunarríkjum. Árangurinn skilar sér til fólksins með aukinni atvinnusköpun og bættum lífskjörum. Sóknarfæri Íslendinga eru töluverð, enda getum við deilt þekkingu okkar og reynslu með fátækari ríkjum heims.

Samstarf Íslands, Alþjóðabankans og Norræna þróunarsjóðsins um aukna nýtingu jarðhita í Austur-Afríku er gott dæmi þar sem íslensk sérþekking gegnir lykilhlutverki. Samstarfið gerir ráð fyrir að Íslendingar aðstoði ríki við að meta bestu jarðhitasvæðin, gera nauðsynlegar grunnrannsóknir og veita liðsinni við gerð áætlana um jarðboranir til þess að meta stærð auðlindanna. Vonir eru bundnar við að samstarfið muni leiða til aukinnar raforkuframleiðslu sem geti skipt sköpum fyrir þetta fátæka svæði Afríku. Með samstarfinu erum við að bregðast við þeirri miklu orkufátækt sem ríkir á svæðinu, en aðgangur að orku er af mörgum talinn einn mikilvægasti liðurinn í að stuðla að aukinni hagsæld fátækra samfélaga.

Veigamikil vegferð
Í dag sit ég fund þróunarnefndar Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir hönd Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Á fundinum munu 25 ráðherrar og seðlabankastjórar koma saman til að leggja línurnar um framkvæmd nýrrar stefnu Alþjóðabankans og ræða hvernig bankinn geti betur brugðist við fyrirliggjandi áskorunum, styrkt hagvöxt og jöfnuð í þróunarríkjum, ekki síst í kjölfar efnahagserfiðleika undanfarinna sex ára.

Ég tel áherslusvið okkar innan bankans, jafnrétti, orku- og fiskimál, vera meðal sviða sem stuðlað geta að framþróun og hagsæld og að Alþjóðabankinn þurfi að huga sérstaklega að þessum atriðum til að ná tilsettum árangri.
Á Íslandi er til staðar hafsjór af þekkingu og reynslu sem getur reynst þróunarríkjum afar mikilvæg. Þannig getum við Íslendingar stutt við þessa veigamiklu vegferð.

20. mars 2014 · Slökkt á athugasemdum við Skýrsla utanríkisráðherra til Alþingis 2014 · Categories: alþingi, Norðurlönd, Öryggis- og varnarmál, Ríkisstjórnin, Utanríkismál, Ýmislegt

 

  • Ég fylgi hér úr hlaði skýrslu minni til Alþingis um utanríkis- og alþjóðamál. Það er rík hefð fyrir þessari skýrslugjöf hér á Alþingi og umræðum þeim sem á eftir fylgja. Er það ánægjulegt að geta lagt fram eins efnismikla skýrslu og hér er á borðum og er það von mín að um efni hennar geti átt sér stað góðar umræður í dag.

 

  • Staða Íslands í alþjóðsamfélaginu, hlutverk okkar og áherslur er ákaflega mikilvæg umræða. Ekki bara hér á Alþingi heldur í samfélaginu öllu. Er hægt að fullyrða að vandfundin er sú þjóð sem er eins vel upplýst um alþjóðamál og er eins meðvituð um stöðu sína og hlutverk í alþjóðasamfélaginu og við Íslendingar.

 

  • Við erum sjálfstæð, megnug og velmegandi þjóð sem hefur kosið að eiga náið samstarf við nágranna sína, vinaþjóðir og bandamenn. Um meginstef utanríkisstefnu Íslands ríkir í öllum aðalatriðum sátt og hefur svo verið nánast óháð því hvaða stjórnvöld sitja hverju sinni, þótt um einstaka ákvarðanir geti vissulega verið skiptar skoðanir.

 

  • Gegnumsneitt hafa íslensk stjórnvöld leitast við að auka hagsæld á Íslandi með því að opna markaði fyrir íslenska framleiðslu, menningu og hugvit. Með sama hætti hafa stjórnvöld talað röddu Íslands á alþjóðavettvangi svo að sérstaða okkar skiljist og að hagsmunir verði tryggðir. Þá er öryggi lands og þjóðar eitt af megin hlutverkum stjórnvalda. Ísland hefur ávallt farið þá leið að taka þátt í alþjóðasamstarfi, gert samninga við bandamenn okkar um varnir landsins og talað fyrir friði og mannréttindum.

 

  • Í þessari upptalningu birtast meginstefin sem slegin hafa verið í íslenskri utanríkispólitík. Þetta eru sömu stef og meirihluti þjóðar hefur fylkt sér um og þetta er leiðarljós fólksins sem skipar utanríkisþjónustuna.

 

  • Með leyfi forseta: „…„Permanent Mission of Iceland, góðan dag” segir silkimjúk og traustvekjandi kvenmansröddin í símann. Mér líður strax betur, kynni mig og segist vera í nokkrum vanda. „Ég er staddur í Mombasa, vegabréfs- og farmiðalaus. Getið þið hjálpað!” – „JESÚS” segir hljómþýða röddin – missir örlítið taktinn en er snögg að ná fyrri yfirvegun. „Jú, við getum örugglega bjargað því”. Samtalið heldur áfram og námsmaðurinn leggur á skömmu síðar, rólegur og sæll í bragði…

 

  • Þessi tilvitnun er í bloggskrif starfsmanns utanríkisþjónustunnar. Hvers vegna er það nefnt hér í ræðustóli Alþingis? Jú, utanríkis- og alþjóðamál eru lifandi málaflokkur og munu úrlausnir vandamála og stefnubreytingar alltaf taka mið af samspili hagsmuna og hugmynda um samfélag okkar. Með nýjum tímum fylgja ný vinnubrögð. En grunnurinn er ætíð sá sami.

More »

19. febrúar 2014 · Slökkt á athugasemdum við Aðildarferlið og ESB skýrsla hagfræðistofnunar · Categories: Ýmislegt

Framsöguræða á Alþingi 19. febrúar 2014

Virðulegi forseti,

Það er ekki laust við það að einhver spenna hafi verið í loftinu undanfarna daga í tengslum við þá skýrslu sem boðað var í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að unnin yrði um ESB og það aðildarferli sem fyrri ríkisstjórn efndi til.

Nú er hún komin og þar með liggur fyrir fræðilegt mat óháðs fagaðila, Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.

Fagna ég því að umræða geti nú farið fram um þessa skýrslu, ekki síst hér á Alþingi. Vona ég að skýrslan muni einnig gefa grundvöll fyrir opinni og hreinskiptri umræðu í þjóðfélaginu um þetta stóra mál sem svo mjög hefur verið skipst á skoðunum um í þessum þingsal síðustu árin.

Það þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart að það sé spenna í loftinu. ESB-málið er mál sem klofið hefur flokka, klauf síðustu ríkisstjórn og hefur síðast en ekki síst rekið fleyg í þjóðmálaumræðu í þessu landi á sama tíma og önnur ærin viðfangsefni sátu á hakanum. Er það afar miður að svo hafi farið.

Það er fullljóst að það ferli sem hafið var sumarið 2009 var ekki til þess fallið að stuðla að sátt í samfélagi sem var í sárum. Kveikt var á villuljósi. Við það ljós eltust menn um lendur og strendur og hefur dýrmætum tíma velmeinandi fólks verið varið í þá vegferð alla.

Ég vonast til að í dag beinum við umræðunni að skýrslunni sem hér liggur fyrir og efnisatriðum hennar og því mati sem þar er að finna á einstökum þáttum. Við eigum að horfa fram á veginn í þessu máli, sem og öðrum reyndar. Ég treysti því að með þessa úttekt í farteskinu farnist okkur það. Flöktandi villuljós eiga ekkert erindi í þá umræðu. More »

12. febrúar 2014 · Slökkt á athugasemdum við Norrænt samstarf í öryggismálum · Categories: Norðurlönd, Öryggis- og varnarmál, Utanríkismál

Norræn samvinna byggir á gömlum merg en á síðustu árum hefur samstarfi í utanríkis- og öryggismálum vaxið fiskur um hrygg. Í þessu sambandi mörkuðu skýrsla Thorvalds Stoltenbergs um aukið samstarf landanna á þessu sviði og norræn samstöðuyfirlýsing um gagnkvæma aðstoð á hættu- og neyðartímum tvímælalaust þáttaskil.

Það fer vel á því að í dag hittist utanríkisráðherrar og varnarmálaráðherrar Norðurlandanna í Keflavík á sama tíma og flugsveitir Norðmanna, Svía og Finna stunda æfingar á Íslandi. Æfingarnar byggja á tillögum Stoltenbergs um norræna loftrýmisgæslu og gefa þátttökulöndunum tækifæri til að samhæfa aðgerðir og efla tengslin sín á milli. Þannig styrkja Norðurlöndin samvinnu sína á heimaslóð en efla jafnframt getu sína til að starfa saman í alþjóðlegum verkefnum.

Aðildin að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin gegna lykilhlutverki í varnarmálum Íslands. Norræna samstarfið er mikilvæg viðbót vegna þess að það nær til margra og ólíkra áhættuþátta, m.a. hernaðarógna, skipulagðrar glæpastarfsemi, hryðjuverka, umhverfisöryggis og netöryggis, svo fátt eitt sé nefnt. Samstarf og æfingar með grannríkjunum gera okkur betur í stakk búin til að vinna með frændþjóðunum og styrkir jafnframt staðarþekkingu erlendu gestanna en hvort tveggja getur reynst mikilvægt ef hætta steðjar að.

Dagskrá ráðherrafundarins í dag endurspeglar þessa auknu breidd í samvinnu landanna. Við munum ræða framtíðarþróun norræna samstarfsins, öryggishorfur á norðurslóðum, verkefni Atlantshafsbandalagsins og hvernig Norðurlöndin geta í sameiningu lagt sín lóð á vogarskálar alþjóðlegrar friðaruppbyggingar.

 

Greinin birtist í Fréttablaðinu og á Vísir.is 12.2.2014